Ályktun um útlendingamál ekki samþykkt á fundi Samfylkingarinnar – „Í rusli yfir þessari niðurstöðu“

Stjórnmál 21. apr 2024

Tillöga að ályktun um útlendingamál sem lögð var fyrir flokkstjórnarfund Samfylkinginnar í gær var hvorki samþykkt né felld á fundinum heldur vísað til nefndar. Sem er „bara heimilisleg aðferð til að fella hana,“ að mati Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors emerítusar í íslensku.

Samstöðin greindi frá því í gær að lögð hefði verið fyrir flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar tillaga að ályktun um útlendingamál sem augljóslega hefði verið beint gegn orðum Kristrúnar Frostadóttur, formanns flokksins, fyrr á þessu ári. Kristrún sagði í febrúar meðal annars að ekki færi saman að vera með opin landamæri og halda úti velferðarkerfi, að hún teldi að tillaga um að setja upp lokuð búsetuúrræði fyrir hælisleitendur ætti að fá þinglega meðferð og að líta ætti til Norðurlandanna í málefnum hælisleitenda og innflytjenda. 

Í tillögunni að ályktuninni var hins vegar tekinn vari við því að setja á laggirnar lokuð búsetuúrræði, sem var í ályktuninni kallað „varðhaldsbúðir“. Þá var í tillögunni lögð áhersla á mannúð, baráttu gegn andúð og fordómum, mikilvægi inngildingar og þrengingu að fjölskyldusameiningum mótmælt. 

Þessi tillaga var þegar til kastana kom tekin og stytt all nokkuð á fundinum sjálfum. Má segja að ákveðinn broddur hafi verið dreginn úr henni við þá styttingu en eftir stóð þó meðal annars að flykkurinn gyldi „mikinn varhug við lokuðum búsetuúrræðum og aðför gegn og þrengingu á rétti til fjölskyldusameiningar flóttafólks“. 

Hins vegar treysti flokkurinn sér ekki heldur til að samþykkja þá ályktun heldur var henni vísað til nefndar til meðferðar þar. Í stjórnmálaályktun fundarins sem samþykkt var í gær má finna þessa klausu: „Flokksstjórn Samfylkingarinnar telur mikilvægt að vinna gegn skautun í samfélaginu þegar kemur að útlendingamálum. Til þess að ná árangri þarf heildstæða sýn í málaflokknum með gildi jafnaðarmennsku um mannúð og inngildingu að leiðarljósi.“ Orðalag sem er auðvelt að túlka á nokkuð breiðan veg. 

Sabine Leskopf borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, ein af þeim sem lagði uphaflegu tillöguna fram, segist í færslu á Facebook vera „sorgmædd en stolt af sínu framlagi“. Í umræðum við færslu Sabine koma greinilega fram drjúg mikil vonbrigði með hanteringu ályktunarinnar á fundinum í gær. 

Fleira Samfylkingarfólk blandar sér í umræðurnar, margt hvert sem hefur starfað innan flokksins árum saman. Þannig segir Dóra Magnúsdóttir, fyrrverandi varborgarfulltrúi flokksins: „Úff .. er ansi hrædd um að ég muni ekki treysta mér til að kjósa flokkinn í þetta sinn. En það ku víst vera nóg af fólki sem fílar nýju Samfó.“ Þessu svarar Eiríkur Rögnvaldsson: „Sammála.“

Gunnar Hörður Garðarsson, sem áður var aðstoðarmaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir þá að hann sé „satt að segja í rusli yfir þessari niðurstöðu“. Þorvaldur Sverrisson, auglýsingamaður sem hefur verið virkur meðlimur Samfylkingarinnar árum saman, segir að sér þyki niðurstaða virkilega sorgleg og klikkir út með þessum orðum: „En formaðurinn er ekkert að djóka með útlendingaandúðina og hefur gert hana að stefnu flokksins.“

Sema Erla Serda

Þetta er flokknum til háborinnar skammar, en kemur því miður ekki á óvart.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí