Sigurður Darri Rafnsson þjálfari segir nokkuð ljóst að bann við sterum í Crossfit á Íslandi sé í orði en ekki á borði. Hann telur þetta sérstaklega varhugavert í ljósi þess að Crossfit býður upp á barna- og unglingastarf. Fjöldi unglinga á Íslandi stefni á að keppa í Crossfit og vegna slakra krafa um bann við sterum, sé nokkur hætta á því að þau geti leiðst út í steranotkun. Í pistli sem hann birtir á Facebook biðlar Sigurður Darri til foreldra þessara barna að þrýsta á Crossfitsamband Íslands um að herða reglunar.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Sigurðar Darra um málið í heild sinni.
Er Crossfit á Íslandi hrein íþrótt?
RIG var haldið fyrr á þessu ári, viðburður sem er haldin af Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Þetta er alþjóðlegt mót þar sem íþróttagreinar bjóða sterkum erlendum keppendum, vekja áhuga á íþróttinni, fá reynslu fyrir sína keppendur, auka samkeppnishæfni og draga úr ferðakostnaði. Þetta er heilt yfir frábær viðburður og mikilvægur partur af grósku keppnisíþrótta á íslandi.
Crossfit er ekki flokkað sem íþrótt samkvæmt ÍSÍ (Íþróttasambandi Íslands), en fékk þó að taka þátt á RIG. Það sem er merkilegt við það er að allar íþróttir sem tilheyra ÍSÍ keppa undir þeirra reglum þar sem steranotkun er bönnuð og markvisst er unnið gegn henni en Crossfit starfar í tómarúmi og hefur engar slíkar reglur eða ramma sem banna eða taka á sterum.
Það er mikilvægt að hafa í huga að íþróttafélög eru félög sem hafa ekki hagnaðarlega starfsemi, markmiðið er að bjóða upp á íþróttastarf fyrir börn og unglinga ásamt afreksstarfi. Því má engan afslátt veita af reglum og eftirfylgni þegar kemur að steranotkun. Hugarfarið má aldrei vera „þetta hefur slæm áhrif á businessinn eða ímyndina” heldur að þetta hjálpi við að halda íþróttinni hreinni.
Höfuðstöðvar Crossfit í Bandaríkjunum framkvæma sín eigin lyfjapróf og hafa frjálst val um það hverja þau testa eða testa ekki. Þau ráða líka hvort þau upplýsi um hverjir hafa fallið á lyfjaprófi. Á meðan flestar aðrar íþróttir eru með óháðan þriðja aðila sem sér um prófanir. Þetta grefur auðvitað undan öllu trausti og mun það vera mjög erfitt að treysta að Crossfit í útlöndum sé steralaust sport fyrr en prófunum er úthýst til þriðja aðila.
Lyfjaprófun er ekki áberandi í íslensku Crossfitti. . Það er talað um að sterar séu bannaðir en erfitt er að sjá annað en að það sé bara í orði en ekki á borði. Það eru tvær keppnir á háu leveli í Crossfit á íslandi, RIG og svo Íslandsmeistaramótið í Crossfit. Engar vísbendingar eru um að keppendur á þeim mótum hafi verið skikkaðir í lyfjapróf nýlega, né að þeim hafi verið kynntur möguleikinn á slíkri kröfu. Það leiðir til þess að keppendur geta mætt á þessi mót áhyggjulaus um að verða sett í lyfjapróf.
Þetta er ákvörðun, Crossfit stöðvarnar geta tekið sig saman, virkjað CSÍ (Crossfitsamband Íslands), verið með regluumgjörð um steranotkun þar sem keppendur skrifa undir nokkrum mánuðum fyrir mót að þau gætu átt von á því að fá heimsókn frá lyfjaeftirlitinu sem og á mótsdag. Danmörk er til dæmis með samband sem heitir Functional fitness og passa þau að testa íþróttafólk til að halda íþróttinni hreinni.
Það eru til íþróttir þar sem er ekki lyfjaprófað eins og Strongman á íslandi, það er gott og blessað, fólk veit hvað er að frétta þar. Í þeirri íþrótt er gjarnan keppt í deadlift, hnébeygju og bekkpressu og skrá þau sín eigin Íslandsmet, en ef fólk vill ganga að hreinni íþrótt í þessum greinum getur það keppt í Kraftlyftingum sem eru undir ÍSÍ því þar er testað og önnur Íslandsmet skráð. Crossfit er alveg náskylt Strongman eins og er, það er ekki testað, en það sem er varhugavert er að Crossfit býður upp á krakka og unglingastarf og fjöldi unglinga sem stefna að því að keppa í sportinu. Það er gífurlega mikilvægt að þau viti að þau séu að ganga að íþrótt þar sem steranotkun er fordæmd í allri sinni mynd. Skilaboðin þurfa að vera skýr. Því biðla ég til allra þeirra foreldra sem eiga unglinga sem keppa í Crossfit að þrýsta á CSÍ að taka á sínum málum.
Fyrir utan að vera hræðilegt fyrir líkamlega og andlega heilsu þá er siðferðislega rangt að taka stera í íþróttum þar sem lyfjanotkun er bönnuð. Með því að keppa á sterum er verið að vanvirða og taka af fólki, sem tekur ekki stera, alla þá vinnu og orku sem þau hafa sett í íþróttina með því að taka sæti frá þeim. Að taka stera og keppa svo í íþrótt er virkilega óheiðarleg og aumingjaleg hegðun, sérstaklega á Íslandi. Með því að taka stera mun iðkandinn aldrei komast af því hvað hann hefði getað áorkað með eingöngu harðri vinnu og í mínum huga er það mikill synd. Hér er ekki verið að halda því fram að forsvarsmenn keppnismóta í Crossfit á Íslandi styðji á einhvern hátt steranotkun. Því verður hins vegar ekki neitað að aðgerðarleysið er ærandi og er það skoðun mín að löngu sé kominn tími á að mótuð sé skýr stefna um þessi mál til framtíðar.