Katrín Jakobsdóttir sem sagði í morgun í viðtali við Ríkisútvarpið að hún væri alvarlega að íhuga framboð, gæti ef hún verður kjörin forseti Íslands, komist í þá stöðu að sitja beggja megin borðsins valdalega ef kæmi að embættisskyldum hennar sem forseta gagnvart sitjandi ríkisstjórn.
Þetta segir Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi í viðtali við Rauða borðið á Samstöðinni í kvöld.
Ef Katrín býður sig fram til embættis gætu tvær ástæður legið því til grundvallar:
Annað hvort fer Katrín fram án samráðs við samstarfsflokkana í ríkisstjórninni. „Þá er stjórnarkreppa og starfið í uppnámi,“ segir Baldur.
Hnn kosturinn er að sögn Baldurs að Katrín fari fram í samstarfi við samstarfsflokkana. „En þá er hún orðinn beinn þátttakandi í myndun ríkisstjórnar sem hún ætlar að vera yfir,“ segir Baldur og vísar til þess aðhalds sem forseti Íslands ber að sýna ríkisstjórninni.
Baldur undrast að ekki hafi orðið meiri umræða um þessa stöðu sem hann kallar alvarlegan hlut – hvað sem fólki finnst um ríkisstjórnina.