Barnabókahöfundur flúði af Rúv yfir á Samstöðina

Fjölmiðlar 18. apr 2024

„Sem gamall fjölmiðlahundur hef ég tröllatrú á Rúv, nánast eins og barnatrú,“ segir Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur og höfundur einnar vinsælustu persónu barna á Íslandi, Fíasólar. Þetta kemur fram í færslu á samfélagsmiðlum sem Kristín Helga ritar en færslan hefur vakið mikla athygli.

Mat rithöfundarins er nefnilega á þá leið að þótt Rúv hafi eitt sinn verið Snorrabúð sé af sem áður var.

„EN nú hlustaði ég á hundrað km langt eintal um Tesluhleðslu hjá Enneinum á præmdrævtæm, kjöraksturstíma, alveg þannig að ég er sannfærð um að spyrillinn hefur skroppið á klóið, fengið sér kaffi og hringt í mömmu sína á meðan markaðsgúrú Enneins lét dæluna ganga um dælurnar,“ segir hún um viðtal á Rúv í morgun.

Rúv fær um níu milljarða króna árlega til að halda úti starfsemi með þeim rökum meðal annars að starfsmenn þess dragi ekki taum sérhagsmunaafla.

Á sama tíma lepja margir minni einkareknir fjölmiðlar dauðann úr skel þar sem Rúv sogar til sín mestallt auglýsingafé.

Starfsmenn miðla sem ekki geta seilst í vasa almennings fyrir rekstrarfé, hafa ítrekað í könnunum lýst erfiðum vinnuskilyrðum, löngum vinnutíma og rýrum kjörum. Þeirri skoðun hefur verið haldið á lofti að mikla sjálfboðavinnu fólks í einkageiranum þurfi til að halda uppi þjóðmálahlutverkinu sem mörgum finnst að hafi brugðist hjá Ríkisútvarpinu.

„Þetta var ekkert að gera fyrir mig svo ég teygði mig í takkann og skipti yfir á Samstöðina, sem gerist æ oftar í mínu útvarps og sjónvarpslífi,“ skrifar Kristín Helga. „Þar voru kunnáttumenn að ræða skelfilegt ástand á húsnæðismarkaði. Samtal sem ég heyri alltof sjaldan miðað við ógnina sem vofir yfir ótal heimilum hérálandi.“

„Við verðum nefnilega að tala um málin til að breyta þeim,“ segir Kristín Helga.

Einstæð móðir með tvö börn, varaþingmaður í stjórnarandstöðunni, flutti í gærkvöld ræðu um að langstærstur tekna hennar færi í vaxtakostnað af húsnæðisláni. Sá hluti ræðu hennar var ekki meðal þess sem fréttastofa Ríkisútvarpsins fjallaði um í langri endursögn af því helsta sem kom fram á fréttavef Ríkisútvarpsins af vantraustsumræðu á ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.

„Og ég heyri af mjög mörgum úr öllum skoðanafélögum sem skipta oftar og oftar yfir á þessa stöð [Samstöðina] til að sækja sér upplýst, gagnrýnin og hugrökk samtöl um það sem máli skiptir,“ segir Kristín Helga, sem er kærkomin hvatning fyrir starfsmenn og áhangendur Samstöðvarinnar.

Margir taka í athugasemdum undir orð rithöfundarins í gagnrýni á Rúv og virðist sammerkt að Rúv þurfi að gera betur.

„Samstöðin rokkar,“ segir fyrrum ritstjóri Fréttablaðsins, Sigmundur Ernir Rúnarrson.

Þeir sem telja sig aflögufæra og vilja auka líkur á að Samstöðin haldi velli sem mikilvægur fjölmiðill, geta stutt við reksturinn og aukið líkur á enn betri dagskrá með hóflegu mánaðarlegu framlagi. Samstöðin þakkar stuðninginn.

 Sjá hér: Áskrift – Samstöðin (samstodin.is)

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí