Litlar líkur eru samkvæmt heimildum Samstöðvarinnar á því að Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, taki tillit til athugasemda pírata og fleiri þingmanna í minnihlutanum um að dagskrá Alþingis verði breytt í dag þar sem starfstjórn hafi ekki sama umboð og hefðbundin ríkisstjórn.
Birgir fundar skömmu fyrir hádegi í dag með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna Þingmenn sem Samstöðin hefur rætt við telja litlar líkur á að þingforseti muni sinna óskinni. Í samtali við Rúv sagði Birgir óþarft að fara á taugum þótt umboð starfstjórnar til skamms tíma væri ekki með sama hætti og lögformlegrar ríkisstjórnar.
Alþingi kemur saman klukkan 15 í dag. Fyrir liggur að fjármálaætlun seinkar enn. Ekki liggur enn fyrir hver verður næsti forsætisráðherra og á meðan er Katrín Jakobsdóttir starfandi forsætisráðherra í starfstjórn.
Framboð Katrínar til forseta hefur leitt til úlfúðar meðal hluta Íslendinga. Sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrum oddamanneskja í Sjálfstæðisflokknum, í viðtali á Samstöðinni í gær að Katrín sýndi ekki ábyrgð með því að hlaupa frá hálfkláruðu verki á viðkvæmum tímum.
Óvíst er hvort framsóknarmenn eða sjálfstæðismenn fá forsætisráðherrastólinn þegar Katrín hættir þingmennsku. Nánast má útiloka að hann verði áfram á höndum vinstri grænna.
Fleiri hrókeringar verða meðal ráðherra. Vitað er að óformleg samtöl hafa orðið flokka á millum um ýmsar sviðsmyndir of hefur minnihlutastjórn verið nefnd. Meiri líkur eru taldar en minni á að flokkunum sem skipa ríkisstjórnina takist að koma í veg fyrir stjórnarkreppu. Ákall um kosningar í haust verður þó æ háværara.