„Ég er mjög ánægð með að þingmenn pírata skuli mæla í gallabuxum í þingið. Gallabuxur eru viðurkenndur og fallegur klæðnaður og þegar ég klæddist gallabuxum á Alþingi og var gerð afturreka, fannst mér athugasemdin sem yfirvöld Alþingis gerðu við mig ekki í takti við tímann,“ segir Elín Hirst, fyrrum þingmaður.
Mogginn hefur rifjað upp að píratar og jafnvel fleiri þingmenn hafi klæðst gallabuxum í þingsal síðustu daga.
Ellefu ár hafa liðið síðan Elín Hirst mætti sem nýr þingmaður í þingsal í gallabuxum, fyrst þingmanna en það átti eftir að hafa afleiðingar.
Birgir Ármannsson forseti Alþingis segir engar reglur skráðar um klæðaburð þingmanna en byggt sé á venju um snyrtilegan klæðaburð. Þegar Samstöðin ræddi við Elínu um stóra gallabuxnamálið í dag, segir hún að fyrst og fremst rifji umfjöllun Moggans upp ljúfar endurminningar frá þeim tíma þegar hún var á þingi. Allt hafi verið afgreitt í góð.
„Það kom mér samt á óvart að þessar athugasemdir skyldu gerðar,“ segir Elín um daginn forðum.
„Ég hafði séð að þingmenn voru í buxum í öllum litum, rauðum, bláum og svörtum og held kannski að þessi athugasemd með gallabuxurnar hafi byggst á misskilningi,“ segir hún. „Ég vissi ekki að ég væri að brjóta reglur en samt var ég svo hlýðin að ég dreif mig heim og skipti um fatnað,“ segir Elín í léttum tóni.
Daginn eftir tók hún til máls undir liðnum Störf þingsins og ræddi þá að Alþingi yrði að vera í takt við tímann.
„Það er nefnilega bæði hægt að vera snyrtilegur og í þægilegum vinnufatnaði.“