Íranir heita því að bregðast af hörku við eftir eldflaugaárás Ísraelshers á ræðismannsskrifstofu Írans í Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Árásin, sem gerð var í gær, varð að minnst kosti sjö manns að bana en líklega enn fleiri. Meðal þeirra sem létust voru tveir háttsettir hershöfðingjar Írana.
Árásin í gær er sú fyrsta þar sem Ísraelsher beinir spjótum sínum að ræðismannsskrifstofum Írans, en hefur hins vegar gert ítrekaðar árásir á hernaðarmannvirki Írana í Sýrlandi.
Ræðismannsskrifstofan er staðsett við hlið sendiráðs Írana í Damaskus en ekki virðist hafa orðið tjón á byggingum sendiráðsins. Sendiherrann sjálfur, Hossein Akbari, slapp ómeiddur og lýsti því að Íranir myndu bregðast við með afgerandi hætti. Utanríkisráðherra Írans, Hossein Amirabdollahian, sagði árásina brot á öllum alþjóðasamþykktum og -skuldbindingum.
Þá lýsti sendinefnd Írana gagnvart Sameinuðu þjóðunum því að árásin væri skýlaust brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, á alþjóðalögum og grundvallarreglunni um friðhelgi diplómata og sendiskrifstofa. Árásin væri alvarleg ógn við öryggi og frið á svæðinu fyrir botni Miðjarðarhafins öllu. Hvatti sendinefndin Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að fordæma árásina og bætti við að stjórnvöld í Teheran áskyldu sér rétt til að bregðast við af hörku.
Sýrlenski utanríkisráðherrann Faisal Mekdad fordæmdi árásina harðlega og sagði hana hryðjuverkaárás þar sem saklaust fólk hefði látið lífið. Flest Arabaríkin fyrir botni Miðjarðarhafs hafa fordæmt árásina einnig, sem og Rússar og Pakistanar. Hezbollah samtökin líbönsku,sem hafa allt frá því að stríðið á Gaza braust út staðið að eldflaugaárásum á Ísrael, hétu því að Ísraelar myndu gjalda fyrir árásina.
Talsmaður utanríkisráðuneytisins bandaríska lýsti því á blaðamannafundi að stjórnvöld þar hefðu áhyggjur af öllu því sem gæti stigmagnað og valdið auknum átökum á svæðinu.
Sérfræðingum sem erlendir fjölmiðlar hafa rætt við ber ekki saman um hverjar afleiðingarnar af árásinni kunni að verða. Þannig eru sumir á þeirri skoðun að með henni hafi Ísraelar boðið hættunni heim á auknum átökum og árásum á meðan að aðrir telja að Íran sé ekki í aðstöðu til að bregðast við með bienum árásum á ísraelsk stjórnvöld. Það myndi kalla á harðari viðbrögð af hálfu til að mynda Bandaríkjanna en Íranir geti búið við.