Hútar sökktu öðru skipi á Rauðahafi

Flutningaskipið Tutor sökkt af Hútum í júní 2024

Associated Press greinir frá því að Hútar hafi sökkt flutningaskipi á Rauðahafi. Skipið heitir „Tutor“ og er grískt (en var að sigla undir fána Líberíu). Hútar eru pólitísk hreyfing og herfylking í Jemen (Ansar Allah) sem ráða yfir vesturhluta landsins og höfuðborginni Sana. Þeir hafa verið að gera árásir á flutningaskip á Rauðahafi frá því að átökin á Gasa hófust 7. október, og hafa lýst því yfir að þeir muni halda þessum árásum áfram þangað til að Ísrael stöðvar þjóðarmorðið gegn Palestínumönnum. Hútar hafa samtals gert árásir á 60 skip, valdið skemmdum á 30 og hafa núna sökkt tveimur skipum.

Hútar eru sagðir hafa notað ómannaðan fjarstýrðan bát með sprengjuefni (svokallaðan drónabát) til að sökkva skipinu. Einn af áhafnarmeðlimum skipsins lést í árásinni, á meðan hinum var bjargað af bandaríska sjóhernum, sem er með mikla viðveru á svæðinu.

Breska flutningaskipið Rubymar, hitt skipið sem Hútar sökktu í mars.

Rauðahafskrísan“ eins og hún er kölluð hófst þegar Hútar í Jemen byrjuðu þann 19. október að gera árásir á flutningaskip á Rauðahafi (skip sem eru á leið í gegnum Súesskurðinn), en 12% af öllum skipaflutningum í heiminum fara þessa leið. Þeir hafa lýst því yfir að þetta sé gert til stuðnings við Palestínumenn á Gasa. Þessar árásir hafa haft talsverð áhrif á alþjóðleg viðskipti, en fyrr á árinu var greint frá því að skipaumferð um Súesskurðinn í janúarmánuði hafi dregist saman um 36% miðað við árið á undan. Þetta veldur því að mörg skipa þurfa að sigla alla leið suður fyrir Afríku, sem þýðir að flutningskostnaður eykst verulega, samhliða því að lengri tíma tekur að flytja vörurnar, ásamt meiri olíukostnaði og almennt auknum kostnaði við slíkar lengri skipasiglingar.

Bandaríkin eru með „carrier task force“ á Rauðahafi með flugmóðurskipinu Eisenhower og hafa verið að stunda reglulegar loftárásir og drónaárásir á Jemen frá því að krísan hófst. Samt hefur þeim ekki tekist að stöðva árásir Húta á skipaflutninga um Súesskurðinn.

Fyrr í mánuðinum sögðust Hútar hafa hæft flugmóðurskipið Eisenhower með eldflaug. En bandarísk yfirvöld þvertóku hinsvegar fyrir þetta og sögðu að skipið væri ólaskað.

Andri Sigurðsson hefur skrifað greinargóða úttekt á ástandinu í Jemen og á Rauðahafi í grein sem var birt á veftímaritinu Neistar. Hann greinir frá því að Hútar hafi komist til valda í Jemen árið 2015 og séu „de facto“ stjórnvöld þar í landi. Þrátt fyrir þetta, eru þeir almennt kallaðir „uppreisnarmenn“ eða „vígahópur“ á RÚV, MBL og Vísi. En á landsvæðinu sem þeir ráða yfir búa 80% af íbúum Jemen, og flestir þegnar landsins styðja stjórnvöld Húta, frekar en stjórnvöld í austurhluta landsins sem eru studd af Sádí-Arabíu. Eftir að Hútar komust til valda í Jemen með byltingu árið 2015 gerði Sádí-Arabía innrás í landið til að reyna að koma aftur til valda þeim stjórnvöldum sem þeir styðja. Í þessari innrás voru Sádí-Arabar studdir af Bretum og Frökkum og notuðu vopn sem voru sköffuð af Bandaríkjunum. Í þessari hernaðaríhlutun drápu Sádi-Arabar um 150 þúsund óbreytta borgara í Jemen með loftárásum, og meira en 225 þúsund létust til viðbótar vegna hungursneyðar sem varð vegna stríðsins. Þetta var ein alvarlegasta mannúðarkrísa sem hefur átt sér stað í heiminum þangað til að Ísrael hóf sitt þjóðarmorð á Gasa.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí