Hútar gerðu drónaárás á borgina Tel Avív í Ísrael í gærkvöldi. Sprengja sprakk í miðborginni rétt hjá bandaríska sendiráðinu. Einn óbreyttur borgari lést í árásinni og um 10 eru særðir. Al Jazeera greinir frá.
Hútar eru pólitísk hreyfing og herfylking í Jemen sem ráða yfir vesturhluta landsins og höfuðborginni Sana (en þeir kjósa sjálfir að kalla sig Ansar Allah).
Þetta er í fyrsta skiptið sem Hútum (Ansar Allah) tekst að gera drónaárás á Ísrael. Þeir hafa áður reynt að gera slíkar árásir, en ekki borið erindi sem erfiði.
Talsmaður Húta, Yahya Saree, lýsti yfir ábyrgð á drónaárásinni í sjónvarpsávarpi og sagði Húta hafa notað nýja tegund af dróna sem þeir nefna „Jaffa“, sem getur flogið óséður í gegnum umfangsmikið loftvarnakerfi Ísraels (sem er kallað „Iron Dome“).
Þá þykir einnig merkilegt hvað dróninn ferðaðist langa vegalengd alla leið frá Jemen til Ísrael, en hann hefur þurft að fljúga eftir endilöngu Rauðahafi og yfir Negev eyðimörkina í Ísrael áður en hann komst til Tel Avív sem er við strönd Miðjarðarhafs.
Þessi árás sýnir hvað Ísrael virðist orðið vera berskjaldað, og hvað Hútar, sem eru gjarnan kallaðir „vígahópur“ eða „uppreisnarhópur“ í íslenskum meginstraumsfjölmiðlum (eins og í frétt Mbl um málið) virðast vera orðnir öflugir þrátt fyrir þessar nafngiftir. En Bandaríkjunum hefur heldur ekki tekist að kveða þá niður, þrátt fyrir að vera með mikla viðveru bandaríska sjóhersins á Rauðahafi, og hafa sjálfir gert margar drónaárásir á Húta í Jemen.
Hútar hafa verið að gera þessar árásir á Ísrael (en árásin í gærkvöldi er sú fyrsta sem heppnaðist) og einnig á alþjóðleg flutningaskip á Rauðahafi (sem eru á leið um Súesskurðinn) frá því að átökin á Gasa hófust 7. október. Þeir hafa lýst því yfir að þeir muni halda þessum árásum áfram þangað til að Ísrael stöðvar þjóðarmorðið gegn Palestínumönnum. Á Rauðahafi hafa Hútar sökkt tveimur flutningaskipum en hafa samtals gert árásir á 60 skip og valdið skemmdum á 30 þeirra. Um þetta var fjallað á Samstöðinni.
Hútar segjast hafa skaðað bandarískt flugmóðurskip
Í maí sögðust Hútar einnig hafa gert eldflaugaárás á bandaríska flugmóðurskipið Eisenhower, sem er núna komið aftur í höfn í Norfolk, Virginíu (þann 14. júlí) eftir að hafa verið staðsett á Rauðahafi í marga mánuði til að verja alþjóðlega skipaflutninga frá árásum Húta.
Bandaríkjamenn neita því að árás Húta á flugmóðurskipið hafi valdið því nokkrum skaða. Samt sem áður snéri skipið aftur í höfn í Bandaríkjunum fljótlega eftir meinta árás Húta á skipið. Þess vegna má spyrja sig hvað reynist vera rétt í þessum staðhæfingum.
Þessi nýlega drónaárás Húta sýnir fram á tvennt:
1. Ísrael vanmáttugt
Í fyrsta lagi er hún vandræðaleg fyrir Ísrael, en árásin sýnir fram á vanmátt þeirra til að stöðva svona árásir og skjóta niður dróna.
Eru Ísraelsher (IDF) og ísraelska leyniþjónustan (Mossad) orðin getulaus? Þeim tekst ekki heldur að eyða Hamas (þeirra yfirlýsta markmið) og að sigra stríðið (lesist: þjóðarmorðið) á Gasa.
Þá er Ísraelsher í sárum eftir margra mánaða hernað á Gasa, sem virðist ekki hafa skilað miklum árangri nema talsverðu mannfalli hjá Ísraelsher (sem Ísraelskt samfélag hefur lítið þol fyrir), og ótal særðum hermönnum sem þjást af áfallastreituröskun (PTSD) á endurhæfingarstöðvum Ísraelshers. Um þetta var fjallað á Samstöðinni.
2. Hernaðargeta Húta fer fram úr væntingum
Í öðru lagi sýnir þessi drónaárás Húta einnig fram á getu þeirra til að gera langdrægar árásir. En það má spurja sig hvaðan þeir fá þessa háþróuðu drónatækni til að geta gert slíkt. Væntanlega frá Íran, sem vitað er að styðja Húta og eru einir af þeim fremstu í heimi þegar kemur að dróna- og eldflaugatækni.
Þá er einnig spurning hvort Rússar muni styðja við Húta, þ.e.a.s. láta þá fá sína dróna- og eldflaugatækni, sem er mögulega sú háþróaðasta í heimi, en Rússar leiða heiminn í þróun svokallaðra ofur-hljóðfrárra (hypersonic) eldflauga. Rússar gáfu í skyn að þeir gætu mögulega farið að senda vopn til uppreisnarhópa sem berjast gegn Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra í Miðausturlöndum, sem hefndaraðgerð Rússa gagnvart Bandaríkjunum eftir að Úkraína gerði árás á sólarströnd á Krímskaga þann 23. júní með bandarískri eldflaug og klasasprengjum, eins og greint var frá á Samstöðinni. En Rússar tóku bandaríska sendiherrann í Moskvu á teppið eftir þessa árás og vöruðu við hefndaraðgerðum. Tveimur dögum eftir þessa árás (25. júní) áttu varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands símtal þar sem rætt var um að að draga úr stigmögnun milli stórveldanna (de-escalation).
Þá áttu varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands einnig annað símtal þann 12. júlí sem snérist jafnframt um að draga úr stigmögnun milli ríkjanna eftir að Bandaríkin tilkynntu á leiðtogafundi NATO í Washington að þau ætluðu að koma fyrir meðaldrægum eldflaugum í Þýskalandi, sem fjallað var um á Samstöðinni.
Munu Rússar láta Húta fá sínar ofur-hljóðfráu eldflaugar?