Viðmælendur Samstöðvarinnar úr hópi pólitíkusa telja flestir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hyggist bjóða sig fram til forseta Íslands. Flestir telja að ákvörðun um framboð hennar verði kynnt á næstu dögum.
Samstöðin ræddi óformlega við nokkra þingmenn og sveitarstjórnarmenn, jafnt stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar sem andstæðinga hennar. Allt ber að sama brunni. Langflestir telja að framboðsslagur Katrínar sé hafinn á bak við tjöldin. Þess vegna fundi þingflokkur sjálfstæðismanna á morgun.
Þingmenn telja ómögulegt að spá fyrir um hvort stjórnin muni lifa af framboð Katrínar. En hvernig skyldu stjórnmálafræðingar túlka stöðuna?
„Ef Katrín fer í forsetaframboð breytir það allri stöðu ríkisstjórnarinnar,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur í samtali við Samstöðina. „Þá þyrfti að stilla öllu upp með nýjum hætti.“
Svandís Svavarsdóttir snýr til baka úr veikindaleyfi á morgun. Inga Sæland mun bera fram vantraust á matvælaráðherrann vegna stjórnsýslu Svandísar í hvalamálinu en þing kemur saman næsta mánudag eftir páskafrí.
„Það yrði allt önnur ríkisstjórn ef Svandís Svavars myndi leiða hana í Katrínar stað,“ segir Eiríkur. „Maður sér varla fyrir sér að að sjálfstæðismenn myndu kyngja því mótbárulaust,“ segir hann ef Katrín mun leggja til að Svandís verði forsætisráðherra í hennar stað.
„Stjórnarsamstarfið er bundið við persónu Katrínar Jakobsdóttur á stóli forsætisráðherra.“
Viðskiptablaðið hefur viðrað þann möguleika að sjallar og framsóknarmenn sparki fylgisrýrum Vinstri grænum út úr stjórninni og kalli Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir formann Viðreisnar og hennar flokk að meirihlutaborðinu. Eiríkur segir slíka hugmynd langsótta. Flokkur sem mynda ganga inn í samstarf á lokaspretti líftíma hennar myndi varla ríða feitum hest frá því fylgislega í næstu kosningum.
Eiríkur er í hópi viðmælenda sem telja að þegar forsætisráðherra þjóðar lætur orðróm um hugsanlegt framboð sitt ganga eins langt og raun ber vitni, bendi það til þess að viðkomandi forsætisráðherra hafi verulegan áhuga á framboði.
Spurður um líkur Katrínar ef hún fer fram, segir Eiríkur sitt mat að Katrín hafi meiri möguleika en aðrir sem hafi verið nefndir á að verða forseti Íslands.