Fyrrverandi forseta Suður-Afríku, Jacob Zuma, verður heimilt að bjóða sig fram í komandi þingkosningum í landinu, þrátt fyrir að hafa hlotið fangelsisdóm vegna spillingar í forsetatíð sinni. Dómstóll í landinu úrskurðaði á þessa vegu í gær.
Með úrskurði stjórnlagadómstólsins í gær var fyrri úrskurði, um að Zuma væri óheimilt að bjóða sig fram, snúið við. Zuma verður því heimilt að bjóða sig fram fyrir MK flokkinn í þingkosningununum sem fram fara í lok næsta mánaðar í Suður-Afríku. Zuma gekk til liðs við MK í fyrra eftir að hafa fordæmt og yfirgefið Afríska þjóðarráðið, sem hann áður leiddi.
Áður hafði yfirkjörstjórn úrskurðað að Zuma væri ókjörgengur sökum sakaskrár sinnar. Zuma var dæmdur til fimmtán mánaðar fangelsisvistar í júní árið 2021, eftir að hann neitaði að bera vitni fyrir nefnd sem rannsakaði fjármálaspillingu og vinhygli í forsetatíð Zuma. Hann sat á forsetastóli á árunum 2009 til 2018.
Þingkosningar fara fram í Suður-Afríku 29. maí næstkomandi og talið er að um tvísýnustu kosningar í landinu verði að ræða frá því að aðskilnaðarstefnunni í landinu linnti og lýðræði komst á árið 1994. Síðan þá hefur Afríska þjóðarráðið setið óslitið að völdum.
Spillingarmál Zuma er aðeins eitt af mörgum sem hafa komið upp á síðustu árum, tengd háttsettum flokksmönnum Afríska þjóðarráðsins. Þannig var gefin út handtökuskipun á hendur Mapisa-Nqakula, forseta suður-afríska þingsins í síðustu viku, og hún síðan handtekin, eftir að hafa sagt af sér embætti. Er hún sökuð um að hafa þegið mútur upp á tugi milljóna þegar hún sat á stóli varnarmálaráðherra, frá ráðgjafarfyrirtæki í hernaðarmálum.
Spillingarmálin sem um ræðir gætu sett Afríska þjóðarráðið í mikinn vanda í komandi kosningum en nýjustu skoðanakannanir sýna að flokkurinn gæti fengið undir helmingi atkvæða, í fyrsta skipti frá árinu 1999.