Halla Hrund Logadóttir mælist með mest fylgi forsetaframbjóðenda í nýrri könnun Prósents. Þau tíðindi eru í könnuninni að Katrín Jakobsdóttir mælist með þriðja mesta fylgið, á eftir Baldri Þórhallssyni, og er neðan við 20 prósent. Ekki mælist tölfræðilega marktækur munur á Höllu Hrund og Baldri en munurinn milli Baldurs og Katrínar mælist tölfræðilega marktækur.
Halla Hrund mælist í könnuninni, sem gerð var fyrir Morgunblaðið, með 28,5% fylgi og tekur gríðamikið stökk, en hún mældist með 18% fylgi í síðustu könnun Prósents. Niðurstaða könnuninarinnar nú er nokkuð í takt við könnun Maskínu sem birtist fyrir helgi, þar sem Halla Hrund skaust á toppinn. Sá er þó munur á þeim könnunum að í könnun Maskínu mældist Katrín í öðru sæti en Baldur því þriðja.
Sé horft á hástökk Höllu Hrundar og minna fylgi Katrínar nú í könnun Prósents, er ekki óvarlegt að ætla að hreyfing sé á fylgi þeirra á milli, og líklegt er að mest af fylgisaukningu Höllu Hrundar megi rekja til þess að fólk hafi fært sig frá Katrínu og yfir til hennar. Þó síga bæði Baldur og Jón Gnarr eiilítið niður á við, svo vera má að Halla Hrund taki einnig fylgi frá þeim, sem og öðrum frambjóðendum sem mun minna fylgi hafa en þau fjögur efstu. Taka ber fram að vikmörk á fylgi eru þó nokkur sem erfitt er að fullyrða um þessa tilfærslu.
Baldur nýtur samkvæmt könnuninni stuðnings 25% þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni. Það er ívið minna en í síðustu könnun Prósents, þar sem hann mældist með rúm 27%. Sem fyrr segir er ekki tölfræðilega marktækur munur á milli þeirra Höllu Hrundar og Baldurs.
Katrín mælist með slétt 18% en í síðustu könnun, í síðustu viku, mældist hún með 24% stuðning. Tölfræðilega marktækur munur er milli hennar og Baldurs, en ekki milli hennar og Jóns Gnarr, sem er fjórði í röðinni, með 16% stuðning, og dalar lítillega milli kannana.
Aðrir frambjóðendur sem spurt var um í könnuninni hafa allir sigið niður á við í fylgi, utan Ásdís Rán Gunnarsdóttir. Hins vegar var um það lágar fylgistölur að ræða í fyrri könnun, og þær eru það lágar núna, að erfitt er að fullyrða um að marktækar breytingar hafi orðið á. Enginn frambjóðendanna í neðri hlutanum nær 4% fylgi, Halla Tómasdóttir mælist með 3,9% en aðrir minna.