Nútímanum fylgja mörg ný vandamál. Það vita við öll. Þau eru auðvitað misalvarleg en ofarlega á lista yfir þau mest pirrandi hlýtur að vera hvernig við erum neydd til að ná í nýtt app við minnsta tilefni. Í það minnsta er Sindri Guðjónsson, fyrrverandi formaður Vantrúar, á þessu máli og veltir því fyrir sér hvort að það sé ekki kominn tími á að stofna nýtt félag, nú með það að markmiði að biðja um grip frá öllum þessum öppum.
„Þegar ég var í eldri bekkjum grunnskóla heyrði ég kennara (frægan tónistarmann sem heitir Tryggi Hubner) tala um félag sem hét „Vinir þagnarinnar“. Á þessum árum var útvarp og tónlist í gangi alls staðar og algjörlega viðstöðulaust. Í búðinni var tónlist, í lyftunni var tónlist, á hverjum einasta vinnustað var útvarpið í gangi og inni á hverju heimili var útvarpið í gangi eins og það væri skylda. Alveg sama hvar maður var á ferli þá var útvarpið gaulandi yfir manni. Ég veit ekki hversu alvarlegt þetta félag var en tilgangur þess var að sporna gegn þessu einhvern veginn (það má öllu ofgera),“ segir Sindri og bætir við:
„Núna held ég að það sé komið tími á eitthvað félag til að biðja um grið frá öppum. Alls staðar þarf að vera app. Ertu að leggjast inn á sjúkrahús?, náðu app. Viltu panta pizzu?, náðu app. Ertu að fara í flug?, náðu í app. App, app, app. Þarf alltaf að vera app?“
Þess má geta að Sindri var gestur í þættinum Heimsmyndir hér á Samstöðinni á dögunum. Það viðtal má sjá hér fyrir neðan.