Höfundur spillingarbókar lætur Katrínu hafa það óþvegið

Þorvaldur Logason spillingarfræðingur, sem gaf út bók um spillingu Eimreiðarklíkunnar í fyrra, hefur ritað grein á Vísi þar sem hann lætur starfandi forsætisráðherra hafa það óþvegið.

Hann bendir á að enginn starfandi forsætisráðherra Evrópu hafi nokkru sinni boðið sig fram til forseta í þroskuðu lýðræðisríki. Ástæðan gæti verið sú að slík ásælni í vald þyki til marks um spillingu.

Líta megi á spillingu sem misnotkun opinbers umboðs í eigin þágu.

Meginhlutverk forseta Íslands sé að tryggja valddreifingu og veita ríkisstjórn landsins aðhald. Forsetinn gegni því mikilvægu hlutverki í vörnum gegn spillingu.

„Framboð sitjandi forsætisráðherra er því sjálfkrafa aðför að stjórnskipun landsins og gróf vanvirðing við anda og markmið stjórnarskrár Íslands. Augljóst er að forsætisráðherra getur ekki veitt ríkisstjórn, sem er að stofni til hans eigin, aðhald. Forsetinn verður þá ófær um að sinna sínu mikilvægasta hlutverki,“ segir Þorvaldur og tekur með þessu undir orð Baldurs Þórhallssonar á Samstöðinni í síðustu viku.

Ekki bætir úr skák að Katrín heldur því fram að forsetaembættið sé ópólitískt og að hún verði ópólitískur forseti, að sögn Þorvaldar.

Það lýsir ágætlega hagsmunaárekstra-vefnum sem Katrín hefur fest sig í að hún sjálf lagði til, í fyrrnefndu frumvarpi sem unnið er að áfram á Alþingi, að kosningar til forseta yrðu á sex ára fresti en ekki fjögurra, auk annarra breytinga. Samt telur hún eðlilegt að hún geti vippað sér yfir og tekið við embættinu. Á máli spillingarinnar nefnist þetta, „state capture“, föngun ríkisvaldsins.

Ofan á allt býður Katrín sig fram á meðan hún er enn forsætisráðherra og notar því opinber völd sem henni hefur verið trúað fyrir, þau æðstu í landinu, í eiginhagsmunaskyni. Lágmark hefði verið að víkja úr embætti fyrst.

Íslendingum hættir til að líta á ákvarðanir valdastéttarinnar út frá einstaklingshyggju – hann er hæfur, hún er vond, hán má það og svo framvegis.Í stað þess að hugsa siðferðilega um skyldur opinberra aðila gagnvart samfélaginu (eins og gert er í siðferðiskafla Rannsóknarskýrslu Alþingis). Siðferðið er félagslegt en ekki atómískt.

Framboð Katrínar grefur undan trausti og veldur hættulegri samþjöppun þess valds sem einmitt er ætlað til valddreifingar, aðhalds og eftirlits með spilltum ríkisstjórnum.Þau orð berast að framboðið sé þegar orðið að álitshnekki á alþjóðavísu, Íslandi til skaða.

Vanvirðing Katrínar við stjórnskipunina er enn eitt dæmið um virðingarleysi ráðandi stjórnmálamanna við stjórnarskrána (einn þeirra var dæmdur í Landsdómi). Þess vegna er bráðnauðsynlegt að fá nýja „andspillingar“ stjórnaskrá – þessa sem mótuð var eftir Hrun af fólki kjörnu beint af almenningi – og bæta í þá góðu stjórnarskrá ákvæði um að þingmenn og ráðherrar megi ekki bjóða sig fram til forseta fyrr en að ákveðnum árafjölda liðnum frá setu.

Valddreifing og aðhald (checks and balances) er mikilvægasta vörnin gegn spillingu í lýðræðisríkjum. Í ljósi stjórnskipunar Íslands má starfandi forsætisráðherra landsins aldrei bjóða sig fram til forseta. Katrínu ber að draga framboð sitt til baka og biðjast afsökunar á frumhlaupinu. Ef ekki þá verður þjóðin að vernda lýðræðið gegn siðblindri og sjálfselskri valdsækni æðsta valdamanns landsins,“ skrifar Þorvaldur.

Sjá alla greinina hér: Er fram­boð Katrínar Jakobs­dóttur spilling? – Vísir (visir.is)

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí