Blaðamennska í landinu á mjög undir högg að sækja á sama tíma og Ríkisútvarpið hefur aldrei verið sterkara. Jafna verður aðstöðumun hins opinbera og einkarekinna fjölmiðla. Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Hann segir mörg dæmi um að blaðamenn sæki um önnur störf og gerist upplýsingafulltrúar eða annað eftir að þeir hafi öðlast reynslu í blaðamennsku. þetta gerist þótt fólk brenni fyrir blaðamennsku og hljóti ástæður að tengjast starfskjörum blaðamanna og álagi.
„Mér finnst gríðarlega mikilvægt mál að við búum við þannig fyrirkomulag að þú getir rekið öðruvísi fjölmiðil en Ríkisútvarpið,“ segir Guðlaugur Þór.
Í viðtali við Rauða borðið á Samstöðinni í gær ræddi Guðlaugur Þór mikilvægi reyndra fjölmiðlamanna. Hann taldi þá vinna kraftaverk daglega að setja sig inn í þung og erfið mál við erfiðar aðstæður. Vandinn væri að reyndir blaðamenn sem gætu miðlað yngri blaðamönnum af reynslu sinni væru að tína tölunni.
Þá segir Guðlaugur Þór, sem fékk 41 prósents fylgi í síðasta formannsslag á Landsfundi, um Samstöðina að hún sé frábært dæmi um frjálst framtak í fjölmiðlaheiminum. Hann segist styðja og fagna framtaki stöðvarinnar og umræðu sem hann segir mikilvæga fyrir samfélagið.
Sjá samtalið við Guðlaug Þór og einnig spjall við Lilju Alfreðsdóttur ráðherra og fleira áhugavert efni í þætti gærkvöldsins hér: Umræðan um fjölmiðlana hefst á 58. mínútu.