Samkvæmt nýlegri samantekt Leigjendasamtakanna þar sem húsaleiga á Íslandi og í Noregi er borin saman kemur fram að húsaleiga er fjörtíu prósent hærri í Reykjavík en í Osló. Norska vefsíðan husleie.no sem heldur utan um markaðsverð á húsaleigu í Noregi segir meðalverð á fjögurra herbergja íbúð í miðborg Osló vera á bilinu 19-20.000 Nkr sem jafngildir 260-270.000 íslenskum krónum. Meðalverð fyrir slíka íbúð Í Reykjavík, vestan Kringlumýrarabrautar er hinsvegar 370.000 krónur.
Hinn dýri Noregur
Alþekkt er að Noregur sé eitt allra dýrasta land veraldar. Þar eru laun að jafnaði með þeim hæstu í heimi, en verðlag að sama skapi hátt. Í fyrra voru regluleg meðallaun í Noregi um það sjöhundruð og þrjátíu þúsund krónur á mánuði, sem er álíka upphæð og hér á Íslandi. Miðgildi meðallauna var sex hundruð og sextíu þúsund sem er ívið lægra en á Íslandi sem skýrist fyrst og fremst af því hversu stór hópur launafólks fær hæstu laun. Í Noregi hefur tæplega þrjú prósent launafólks tekjur sem eru hærri en ein og hálf milljón krónur á mánuði á meðan að hlutfallið á Íslandi er sex prósent.
Meðallaun og launadrefing
Hlutfall launþega á Íslandi sem eru með laun undir meðallagi er töluvert hærra en í Noregi eða alls sextíu og þrjú prósent samkvæmt Hagstofunni, en innan við sextíu prósent í Noregi. Þó að munurinn sé ekki mikill þá segir hann ekki alla söguna og sér í lagi ekki fyrir þá þjóðfélagshópa sem eru á leigumarkaði á Íslandi.
Áttatíu prósent þeirra sem starfa við þjónustu og umönnun eru með laun undir meðallaunum og fórðungur eru með lægri laun en sem svarar sextíu prósent að meðallaunum. Um tveir þriðju hlutar verkafólks á Íslandi er með laun undir meðallagi, eða sextíu og sex prósent og rúmlega fjórðungur þeirra með laun undir sextíu prósent af meðallaunum.
Húsaleiga sem hlutfall af launum fimmtíu prósent hærra
Húsaleiga á fjögurra herbergja íbúð í Reykjavík er orðin rúmlega fimmtíu prósent af meðallaunum á Íslandi. Líkt og rannsóknir hafa sýnt undnafarin áratug hefur hlutfall leigjenda með íþyngjandi húsnæðisbyrði verið mjög hátt og vaxið á sama tíma og það fór lækkandi hjá einstaklingum með húsnæðislán. Rannsóknir hafa líka sýnt að stærsti hluti leigjenda eru með laun langt undir meðaltali. Þannig er álagið sem húsaleiga veldur á lífskjör þeirra mun meira en samanburður á meðallaunum og meðalleigu.
Hlutfall húsaleigu af meðallaunum í Noregi er í kringum þrjátíu og fjögur prósent. Það þýðir að hlutfall meðalleigu á áðurnefndri íbúð er fimmtíu prósent hærra af meðallaunum á Íslandi en í Noregi. Ef hlutfallið væri það sama þyrfit húsaleiga á þessari tegund íbúðar að lækka um 100.000 krónur.
Þetta er líklega ástæðan fyrir því að leigjendur krefjast þess að þak verði sett á leiguverð þar til jafnvægi hefur náðst á húsnæðismarkaði.