Vísitala neysluverðs hækkar um 0,55% milli mánaða og mælist verðbólgan í apríl því 6,0% samanborið við 6,8% í mars og hefur ekki verið lægri síðan í upphafi árs 2022.
Vísitala neysluverð án húsnæðis hækkar um 0,3% milli mánaða og er 3,9% samanborið við 4,7% í mars.
Mest áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs hefur liðurinn húsnæði, hiti og rafmagn sem hækkar um 1,2% milli mánaða (áhrif á vísitölu 0,35%), en þar vegur kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) þyngst og hækkar um 1,7% milli mánaða. Húsnæði, hiti og rafmagn hefur hækkað um 12,3% á síðasta ári.
Ferðir og flutningar hafa einnig töluverð áhrif til hækkunar en flugfargjöld til útlanda vega þar þyngst og hækka rúmlega 11% milli mánaða (áhrif 0,2%). Aðrir áhrifavaldar breytinga í vísitölu neysluverðs er liðurinn heilsa sem hækkar um 0,5% milli mánaða (áhrif 0,02%), tómstundir og menning og þá sérstaklega sjónvörp, myndbönd, tölvur o.fl. sem hækkar um 2,21% milli mánaða (áhrif 0,02%) og liðurinn hótel og veitingastaðir sem hækka um 0,54% milli mánaða (áhrif 0,03%). Föt og skór, húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. ásamt öðrum vörum og þjónustu lækka lítillega í verði milli mánaða.
Frá og með júní næstkomandi verður aðferð við að reikna kostnað vegna búsetu í eigin húsnæði breytt og tekin upp aðferð húsaleiguígilda við útreikning liðarins í vísitölu neysluverðs. Samkvæmt mati Hagstofu Íslands er með breytingunni verið að koma í veg fyrir frávik sem rekja megi til þróunar á fjármálamarkaði, t.d. vaxtabreytingar, sem hafi veruleg áhrif á mælingu á reiknaðri húsaleigu samkvæmt núverandi aðferð. Greinagerð Hagstofunnar um breytinguna má nálgast hér.
Frétt af vef ASÍ.