Hvernig er hægt að ræða loftslagsmál og umhverfismál við börn án þess að valda loftslagskvíða og vonleysistilfinningu? Mikilvægt er að nálgast þessi flóknu mál á forsendum barnanna sjálfra eftir þroska þeirra og getu. Það getur verið ágætt að hugsa samræðurnar sem upphafið af dýpri skilningi sem eykst með tímanum.
Vektu upp forvitni
Það getur dregið úr áhuga barna að byrja samtalið á flóknum hugtökum eins og gróðurhúsaáhrifin og súrnun sjávar. Góð leið til að byrja að fræðast um umhverfismálin er til dæmis að tala við þau um náttúruna, rækta eitthvað heimafyrir, planta fræjum og leyfa þeim að taka virkan þátt.
- Sýndu börnunum hvernig veðrið breytist í takt við árstíðirnar. Það eitt að skilja árstíðirnar hjálpar þeim að átta sig á þeim áhrifum sem jörðin hefur á okkur
- Veittu veðrinu eftirtekt og segðu barninu frá árstíðunum
- Kaupið saman og eldið grænmeti á uppskerutíma þess
- Bentu börnunum á það þegar lóan kemur og fer
- Sýndu þeim hvernig skordýr og önnur smádýr verða sýnilegri á sumrin og að þau hafa öll sitt hlutverk
Vektu athygli á því sem þið getið gert
Umhverfismálin hafa áhrif á okkur í daglegu lífi og mikilvægt er að benda börnunum á það þegar við gerum eitthvað í þágu umhverfisins og náttúrunnar.
Til dæmis:
- Við notum fötin okkar vel og gefum þau áfram þegar þau hætta að nýtast okkur
- Við hjólum og tökum Strætó, það er gott fyrir umhverfið að fækka bílferðum
- Í kvöld eldum við úr afgöngunum heima og sporna þannig gegn matarsóun
- Við skulum elda eitthvað umhverfisvænt á morgun, hvað gæti það verið? Eigum við að kynna okkur það saman?
- Skellum okkur út að plokka, við viljum hafa umhverfið okkar fallegt og fínt og forðast það að plastið endi í sjónum
Æfum okkur í að deila með öðrum
Við deilum jörðinni með öllum öðrum lífverum hennar. Maðurinn er hluti af náttúrunni. Það getur verið áskorun í augum ungra barna að deila einhverju með öðrum en með því að minna á þessa einföldu staðreynd, venjum við þau við tilhugsunina.
Hrósaðu
Vektu því athygli þegar þú sérð barnið gera eitthvað gott í þágu umhverfisins og náttúrunnar. Þannig hefur þú hvetjandi áhrif.
Sýndu þeim að það er ekki öll von úti
Við viljum öll að börnum finnist heimurinn vera góður staður. Það er gott að minna börn á að þau sjálf bera ekki ábyrgð á loftslagsbreytingum heldur fullorðna fólkið og valdhafar.
Mörg í samfélaginu finna fyrir loftslagskvíða. Birtingarmyndir loftslagsmála blasa við okkur og þau eru tíðrædd í fjölmiðlum. Við verðum öll að muna að vonin er þó ekki úti og það er margt jákvætt er að gerast í heiminum.
Vinnum á loftslagskvíðanum
Góðar fyrirmyndir hafa hvetjandi áhrif. Mikilvægt er að við sjálf gefumst ekki upp. Von er bráðsmitandi og hefur góð áhrif á börnin okkar.
Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað.
Heimsfræga vísindakonan Jane Goodall hefur hvatt fólk til þess að leggja sitt af mörkum í þágu náttúruverndar og loftslagsmála. Ef öll myndu leggja eitthvað af mörkum væri staðan örugglega betri en ef fá eru að gera allt 100% rétt og flest að gera lítið.
Við getum öll gert okkar besta og haft jákvæð áhrif.
Þýtt og staðfært af Vigdísi Fríðu, fræðslustjóra Landverndar – frá NRDC.ORG
Frétt af vef Landverndar.