Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar og fréttamaður til áratuga, segist hugsi yfir lítilli þjóðmálaumræðu um klemmu Katrínar Jakobsdóttur sem varðar málskotsrétt ef Katrín verður forseti Íslands.
Sigmar telur að Katrín geti átt erfitt með að sýna faglega og lýðræðsilega dómgreind ef umdeilt stjórnarfrumvarp yrði samþykkt næsta haust sem hluti landsmanna vildi fá að kjósa um og Katrín situr sem forseti á Bessastöðum. Sigmar segir að ef Katrín verði forseti kunni hún að þurfa að taka ákvörðun um hvort vísa beri máli til þjóðarinnar eða ekki og tengsl hennar við núverandi ríkisstjórn séu óheppileg í þeim efnum, Katrín fyrrverandi forsætisráðherra og flokkur hennar enn í stjórn.
„Mér finnst þetta vera mjög mikið umhugsunarefni,“ segir Sigmar eins og sjá má í klippunni að ofan.
Lengri útgáfa verður af umræðu um þetta mál og fleiri pólitísk álitaefni við árstíðaskipti við Rauða borðið á Samstöðinni í kvöld – undir liðnum ÞINGIÐ í umsjá Björns Þorláks.
Nokkrir þingmenn fara yfir þingveturinn. Varar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir pírati við umræðu um að Alþingi sé gerspillt eins og það leggur sig. Slíkur málflutningar gagnist mönnum eins og Bjarna Benediktssyni helst.
Guðmundur Ingi Kristjánsson, varaformaður Flokks fólksins, gagnrýnir í þættinum hvernig ríkisstjórnin kemur fram við öryrkja og fleiri jaðarsetta hópa.
Fulltrúar meirihlutans á Alþingi sáu sér ekki fært að taka þátt í umræðunni vegna anna að þeirra sögn.