„Fréttastofunni ber að biðja Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur afsökunar og reyndar einnig okkur sem eigum þessa fréttastofu og höfum þá menn í vinnu sem ekkert segjast vilja við okkur tala.“
Með þessum orðum lauk Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, pistli sínum í gær en þar færði hann rök fyrir því að mál Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur fréttakonu væri meira en „starfsmannamál“ líkt og Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri hefur haldið fram. María Sigrún var rekin úr Kveik á dögunum og stendur ekki til að sýna innslag hennar sem var langt komið. Það fjallaði um spillingu í Reykjavíkurborg.
Orð sem Ingólfur Bjarni Sigfússon, ritstjóri Kveiks, lét falla um að María Sigrún væri góður fréttaþulur en ekki rannsóknarblaðamaður hefur mörg þótt fyrst og fremst endurspegla kvenfyrirlitningu. Þar á meðal er Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, en hún tekur undir með Ögmundi á Facebook og segir Maríu Sigrúnu eiga skilið afsökunarbeiðni frá fréttastofunni. Hún skrifar:
„Rétt hjá Ögmundi. María Sigrún verðskuldar skýlausa afsökunarbeiðni. Kominn tími til að þessir karlar – allt eru þetta karlar – átti sig á því, að þeir geta ekki stýrt fréttastofunni, eins og þeir eigi hana sjálfir. Þessi ófaglegu vinnubrögð eru til skammar.“