„Ef ég væri ekki svona upptekinn við annað er aldrei að vita nema ég hefði boðið mig fram til forseta. Það hefði þá til dæmis verði undir slagorðinu: Kjósið mig sem síðasta forseta. Það skal að vísu viðurkennast að það yrði dálítil smellubeita því inntakið væri ..síðasta forseta FYRSTA lýðveldisins.“
Þetta skrifar Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, á Facebook kerskinn. Hann segir þó að af fullri einlægni þá sé löngu kominn tími að leggja drög að nýju lýðveldisskeiði á Íslandi. „Það er nefnilega tímabært að hefja annað lýðveldisskeið með mikilli uppstokkun. Fyrir því eru fordæmi, til dæmis eru Frakkar núna á fimmta lýðveldinu og sumir þar vilja leggja drög að því sjötta,“ skrifar Kristinn og útskýrir svo nánar hvað hann á við:
„Annað lýðveldi Íslands er löngu tímabært og þar þarf umbreytingu frá toppi til táar jafnt og frá iljum og uppúr. Það er því ekki endilega lagt til að leggja niður forsetaembættið heldur leggja það niður í núverandi mynd og að sama skapi að leggja niður forsætisráðherraembættið óbreytt. Bæði embættin eru óþörf og má steypa saman í eitt og gefa því pólitískt vægi.“
Hann segir að í núverandi mynd sé forsætisráðuneytið í raun jafn valdalítið og forsetaembættið. Í það minnsta mætti halda það eftir að hafa fylgst með Katrínu Jakobsdóttur sitja í því embætti. „Forsætisráðherraembættið er valdalítið starf fundarstjóra eins og hefur sýnt sig með átakanlegum hætti síðustu misseri og ár. Þar hefur setið kona sem hefur vandræðalega brosað sig í gegnum tár valdaleysisins, á meðan hvert óhæfuverkið á fætur öðru er framkvæmt. Í hennar nafni. Af þessum sökum hefur hvarflað að henni að betra sé að flytja sig um set úr einum valdalausum stól í annan en með minni farangur,“ segir Kristinn og heldur áfram:
„Inntak mitt er þetta, það er ekki þörf á tveimur valdalausum fígúrum í stólum forsætisráðherra og forseta. Það þarf einn yfirmann yfir framkvæmdavaldinu. Einn þjóðhöfðingja. Það má kalla hann forseta mín vegna eða þess vegna forsætisráðherra. Eða bara kalla vðkomandi þjóðhöfðingja. Það er ágætur og þjóðlegur starfstitill. Og þegar þjóðin kýs sér höfðingja þarf það að vera í beinni kosningu og í tveimur umferðum þannig að skýr meirihluti sé að baki viðkomandi. Höfðinginn velur sér síðan ráðherra (best væri þó að nota tækifærið og finna titla sem ættu betur við öll kyn).“
Kristinn þvertekur fyrir að með þessu myndu öf mikil völd sitja hjá einni manneskju. „Nú mætti skilja að þarna væri verið að ætla einni konu eða manni of mikil völd en það er ekki. Á sama tíma þyrfti að efla og styrkja hitt æðsta vald þjóðarinnar, þingið sjálft. Það þarf að vera sjálfstætt, öflugt og skapa valdajafnvægi við framkvæmdavaldið. Eins og staðan er núna er Alþingi of veik stofnun,“ segir Kristinn.
Hann segir að sjálfsögðu þyrfti að skipta út stjórnskrá lýðveldisins, líkt og þjóðin kaus fyrir nokkrum árum. „Það þarf vitaskuld að gera nokkuð róttæka uppstokkun á stjórnarskrá lýðveldisins. Sú vinna er þegar komin vel á veg og þarf aðeins eina viðbótarumferð til að snurfusa til samræmis við ofangreindar hugmyndir. Ekkert af þessu er samt í raun sérstaklega róttækt og byggir á þrautreyndum og gamalgrónum hugmyndum um skástu útgáfuna af lýðræðinu. Ég hef trú á því að þjóðin finni það í beinum sínum að það þarf breytingu og einungis spurning um kjark og þor að taka stökkið til þess frelsis sem skynsamleg stjórnskipan veitir henni. Ísland 2.0 er löngu tímabær uppfærsla,“ segir Kristinn.