Ólafur Margeirsson hagfræðingur segir að þjóðin muni þurfa að búa við háa verðbólgu um ókomna framtíð ef ekkert verður gert til að bregðast við húsnæðisvandanum. Við þeim vanda sé í raun einungis ein alvöru lausn: að byggja margar íbúðir. Þrátt fyrir að húsnæðismál hafi um nokkurt skeið verið helsta aðkallandi vandamál mjög margra kjósenda þá hafa nær allir stjórnmálamenn í raun skellt skollaeyrum. Ekkert bólar á meira að segja einföldum aðgerðum sem þyrftu ekki mikið meira en pennastrik til að framkvæma, svo sem að draga úr hótelvæðingu íbúða en heilu blokkirnar í Reykjavík eru í raun ekkert nema Airbnb hótel.
En flestir stjórnmálamenn hafa lýst yfir miklum áhyggjum af verðbólgunni. Ef marka má Ólaf Margeirsson þá mun núna reyna á hvort vegi þyngra, áhyggjur af henni eða einbeitt áhugaleysi á málefnum leigjenda. Í pistli sem Ólafur birtir á Facebook ber hann saman verðbólgu í Ungverjalandi og hér. Þar hækkuðu menn stýrivexti snarlega á dögunum en Ólafur segir þó stóran mun á hver sé rót verðbólgunar eftir löndum. Ólafur skrifar:
„Verðbólga á Íslandi er hins vegar enn of há (6,8%) til að hægt sé að lækka vexti m.a. hagmódel Seðlabankans. Vandinn sem Seðlabankinn stendur frammi fyrir er að ólíkt Ungverjalandi er verðbólga á Íslandi ekki drifin áfram af innflutningsvörum (sama hvað þeir sem finna allt að krónunni segja) sem hækkuðu og lækkuðu svo hratt í verði síðustu tvö ár heldur af tvennu:
a) háum íslenskum launum, sem hafa viðhaldið verðbólgu í gegnum þjónustulið verðbólgumælingarinnar, og
b) háu húsnæðisverði, sem setja vitanlega þrýsting á a) liðinn: þegar leigu- og fasteignaverð hækkar hækka launakröfur á Íslandi með tilheyrandi verðbólgu á þjónustu sem ekki er hægt að flytja inn til landsins.“
Hann segir að engin aðgerð síðustu tvö ár hafi gert neitt til að leysa síðarnefnda vandann. „Ef þið horfið á framlag húsnæðis og þjónustu til verðbólgu á Íslandi síðustu 2-3 ár (neðstu tvær súlurnar) sjáiði að þessir tveir þættir eru nær óbreyttir og háir síðasta árið eða svo. Öll lækkunin í verðbólgu síðasta árið er vegna annarra þátta en þessara, t.d. samdráttur í verðbólgu á innfluttum vörum, eldsneyti, bílum og varahlutum,“ segir Ólafur.
Eina lausnin sé í raun að byggja meira, annars sé voðinn vís. „Ég hef sagt það áður og segi það aftur: grundvallarvandi verðbólgu á Islandi er skortur á húsnæði, sérstaklega til leigu. Ef þessi framboðsvandi er ekki leystur með þéttari byggð (það er ódýrara á hvern byggðan íbúðarfermetra að byggja þétt) og aukinni fjárfestingu í uppbyggingu á (leigu)húsnæði er hætta á því að vaxtastig haldist hátt því Seðlabankinn heldur sig þurfa að berjast við háa verðbólgu og verðbólguvæntingar þegar skortur á húsnæði ýtir launakröfum og húsnæðislið neysluverðsvísitölunnar upp á við. Hóflegar launahækkanir í nýjustu kjarasamningum munu duga skammt ef skorturinn á húsnæði er ekki leystur.
Það sorglega er að það getur allt eins verið að háir vextir Seðlabankans í dag hægi á lausn framboðsvandans á húsnæði – og þar með verðbólguvandans – því þeir spenna upp byggingarkostnað og draga þar með úr magni nýbygginga. Það er þó fleira sem kemur til þar, t.d. skortur á vinnuafli í byggingargeiranum.“