Mannréttindadómstóllinn úrskurðar að Sviss brjóti mannréttindi með aðgerðarleysi í loftslagsmálum

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg hefur úrskurðað að svissneska ríkið hafi brotið mannréttindi með því að takast ekki á við loftslagvánna af nægilegu afli. Er um fyrsta dóm þessa eðlis að ræða og gæti hann haft víðtæk áhrif um heiminn. 

Dómstóllinn kvað upp úrskurð sinn í málinu í dag. Það var höfðað af yfir tvö þúsund svissneskum konum, flestum á áttræðisaldri, á hendur svissnesku ríkisstjórninni. Konurnar færðu fyrir því rök að loftslagsbreytingar hefðu þau áhrif að hitabylgjur yrðu tíðari og alvarlegri, sem ógnaði lífsgæðum þeirra, heilsu og yllu hættu á dauða þeirra. 

Í úrskurði dómstólsins sagði að svissneska ríkisstjórnin hefði broti mannréttindi sumra kvennanna með því að í svissneskum lögum væri gagnrýnisverður skortur á ákvæðum um aðgerðir til að draga úr hlýnun jarðar, sem og með því að Sviss hefði brugðist í að uppfylla skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. 

Með því hefði hefði svissneska ríkið brotið á rétti kvennanna til að njóta raunverulegrar verndar frá þeim alvarlegu áhrifum sem loftslagsbreytingar hafi á líf, heilsu og lífsgæði, að því er dómstóllinn sagði í yfirlýsingu. Ekki er hægt að áfrýja dómum Mannréttindadómstólsins og eru þeir skuldbindandi að lögum. Dómstóllinn hefur ekki áður kveðið upp dóm í viðlíka máli. 

Sérfræðingar telja að niðurstaða Mannréttindadómstólsins í dag gæti orðið vatn á myllu annarra málssókna af sama tagi, byggðum á mannréttindaákvæðum. 

Dómstóllinn úrskurðaði einnig í tveimur öðrum málum af svipuðu tagi í dag, annars vegar máli sem franskur borgarstjóri höfðaði gegn frönsku ríkisstjórninni, og hins vegar máli sex ungmenna frá Portúgal gegn 32 Evrópuríkjum. Hvoru tveggja málanna var vísað frá. 

Í fyrra málinu, hinu franska, var ástæða frávísunarinnar sú að borgarstjórinn franski hafði frá því málið var höfðað flutt frá Frakklandi og því væri hann ekki lengur aðili máls. Í tilfelli portúgölsku ungmennanna var málinu vísað frá sökum þess að dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að fólkið hefði ekki reynt allar leiðir sem færar væru fyrir portúgölskum dómstólum. Enn fremur úrskurðaði Mannréttindadómstóllinn að engin rök hnygu að því að sexmenningarnir gætu gert kröfur á önnur ríki en heimaland sitt. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí