Stjórnlagadómstóll í Úganda staðfesti í gær í flestum meginatriðum miskunarlaus lög sem beinast gegn samkynhneigð og hinsegin fólki. Lögin fela meðal annars í sér dauðarefsingu í sumum tilfellum.
Forseti Úganda, Yoweri Museveni, undirritaði lögin í maí á síðasta ári. Lögin hafa verið harðlega fordæmd af alþjóðasamfélaginu. Aðgerðasinnar og mannréttindasamtök hafa barist fyrir því að lögin verði afnumin en úrskurður stjórnlagadómstólsins gerir það að verkum að þau munu taka gildi.
Í lögunum eru meðal annars ákvæði um hver sá sem stundi kynlíf með fólki af sama kyni skuli dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hver sá sem tilraun gerir til að stofna til samkynja sambands á þá yfir höfði sér allt að áratugs fangelsisvist.
Í úrskurði stjórnlagadómstólsins í Úganda sagði að lögin gengju gegn fjölda ákvæða í stjórnarskrá landsins, þar á meðal ákvæða um heilsu og um einkalíf. Engu að síður féllst dómstóllinn ekki á að fella lögin úr gildi, né setja á lögbann við því að þeim verði framfylgt. Baráttufólk sem fór með málið fyrir stjórnlagadómstólinn hyggst áfrýja úrskurðinum til hæstaréttar Úganda.
Úganda hefur þegar þurft að taka afleiðingum lagasetningarinnar á alþjóðavettvangi. Alþjóðabankinn hefur stöðvað alla nýja fjármögnun í landinu og Bandaríkin hafa lagt á refsiaðgerðir, meðal annars með ferðatakmörkunum á æðstu embættismenn í Úganda.
Lögin njóta hins vegar stuðnings innanlands. Í Úganda búa yfir 48 milljónir manns og trúarleiðtogar, jafnt sem stjórnmálamenn, hafa barist af hörku gegn samkynhneigð.
Ljóst er að fylgst verður náið með afleiðingunum af lagasetningunni fyrir Úganda af öðrum Afríkuríkjum þar sem andúð á samkynhneigðum er ríkjandi, og á uppleið. Meðal þeirra eu ríki þar sem lagasetning sem beinist gegn samkynhneigðum er í pípunum, til að mynda í Kenía, Namibíu, Tansaníu og í Suður-Súdan. Þá samþykkti þing Gana í febrúar lög sem beinast gegn samkynhneigðum. Forseti Gana, Nana Akufo-Addo, neitaði hins vegar að skrifa undir lögin fyrr en hæstiréttur landsins hefði úrskurðað hvort þau stæðust stjórnarskrá.