Flestum ber saman um að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segi af sér sem forsætisráðherra í dag.
Að loknum ríkisstjórnarfundi er talið að hún muni formlega kynna forsetaframboð og bakka svo út úr ríkisstjórninni sem hún hefur veitt forstöðu í sjö ár.
Vangaveltur eru uppi um hvort framsóknarmenn eða sjálfstæðismenn fái stól Katrínar.
Innan Sjálfstæðisflokksins stendur vilji til að Bjarni afsali sér æðstu tign til varaformannsins, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur. Sjálfstæðisflokkurinn sér fram á afhroð í næstu kosningum vegna óvinsælda Bjarna ef hann leiðir baráttuna áfram, að sögn þingmanna sem Samstöðin hefur rætt við. Sitthvað bendir til togstreitu innan gömlu valdaflokkanna um hver eigi að taka við af Katrínu. Ósamkomulag er sagt ein ástæða þess að Katrín hefur dregið að upplýsa endanlega um eigið framboð.
Óvíst er hvort Katrín muni sigra slaginn í baráttunni um Bessastaði þótt flestir telji að hún eigi góða möguleika.
Fæstir telja að Katrín eigi afturgengt í stjórnmál. Hvernig sem fer.
VG mælist nú með þrjá þingmenn samkvæmt nýjustu könnun Gallup.