Ríkisútvarpið hegðar sér eins og á einkamarkaði. Ruðningsáhrif hins opinbera félags sem nýtur mikillar meðgjafar eru mikil og hafa neikvæð áhrif á aðra fjölmiðla. Rúv reynir að hámraka auglýsingatekjur sínar. Reksturinn er sumpart stjórnlaus.
Þetta skrifar Ingvar Smári Birgisson, lögmaður og fyrrverandi aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, sem í gær hlaut endurkjör í stjórn Ríkisútvarpsins sem varaformaður stjórnar í færslu sem hann birtir á Facebook.
Hann var tilnefndur til stjórnarsetu af þingflokki Sjálfstæðisflokksins og segir að Ríkisútvarpið upplifi sig sem einkafyrirtæki.
Stofnunin sé er í sífelldri skoðun á því hvernig hún geti stillt upp sjónvarpsdagskránni með það að leiðarljósi að hámarka áhorf og þar með auglýsingatekjur.
„Þegar einn aðili hefur svo mikla fjárhagslega meðgjöf getur það verið mjög varhugavert og haft veruleg ruðningsáhrif á markaðnum, sem og er raunin tel ég.“
Lagabreytinga er þörf að hans mati til að bæta menningu starfsmanna Ríkisútvarpsins. Of mikil fjarlægð sé milli Rúv og eiganda, ríkisins. Það eigi við um fleiri ríkisfyrirtæki svo sem Landsvirkjun. Stutt er síðan hundrað milljóna króna lúxusferð Landsvirkjunar vegna árshátíðar sætti mikilli gagnrýni og rifjaði upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar þá upp að árshátíðir Rúv væru oft ekki minna „glamúrös“.
„Stofnanirnar verða að fé án hirðis þar sem þær eru á sjálfsstýringu, bæði fjárhagslega og stjórnunarlega. Ég deili áhyggjum með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og fleirum um að þessi þróun hafi ekki verið til bóta,“ segir Ingvar.
Rúv fær um níu milljarða til rekstrar á sama tíma og menningarlegt hlutverk snýst að nokkru um samkeppni við einkarekna miðla.
Þá hefur aðgangsharka auglýsingadeildar Rúv oft orðið fréttaefni.
Síðast í gær voru fluttar fréttir um óboðlega dagskrárgerð en Ingvar Smári segir sitthvað ágætlega unnið innan stofnunarinnar – þótt stjórnleysið sé mein.
Vísir greindi fyrst frá gagnrýni stjórnarmannsins á Rúv.