Undirskriftir gegn Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra rufu rétt áðan 30 þúsunda múrinn. Þessi söfnun er því orðin meðal allra stærstu undirskriftasafnana Íslandssögunnar á minna en tveimur sólarhringum. Engin söfnun sem vitað er um hefur byrjað með öðrum eins hvelli, náð 30 þúsund undirskriftum áður en fyrstu tveir sólarhringarnir eru liðnir.
Bjarni varð forsætisráðherra á ríkisráðsfundi klukkan 20 á þriðjudagskvöldið. Það tók því ekki nema 38 klukkustundir að rjúfa þennan múr, 30 þúsund undirritanir. Meira en þrettán landsmenn hafa skrifað undir yfirlýsingu gegn Bjarna á hverri mínútu sem hann hefur setið í embætti, einn á fimm sekúnda fresti.
Fólk skrifar nafn sitt undir einfalda yfirlýsingu: Bjarni Benediktsson hefur ekki minn stuðning sem forsætisráðherra. Þau sem vilja setja nafn sitt undir hana geta gert það hér: Undirskriftarsöfnun.
Bjarni hefur undanfarna daga bent á að hann sé sá þingmaður sem flestir kusu í kosningunum 2021. Bjarni var efstur á lista Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, efstur á lista fjölmennasta kjördæmisins þar sem Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mesta fylgisins. 17.727 greiddu Sjálfstæðisflokknum atkvæði í suðvesturkjördæmi 2021. Reikna má með að tvöfaldur sá fjöldi verði búinn að skrifa undir yfirlýsingu gegn Bjarna áður en hann hefur setið í embætti í tvo daga.
Samkvæmt skilgreiningu Bjarna var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sá stjórnmálamaður sem naut mest trausts 2007 og Árni M. Mathiesen árið 2003. Líklega tekur ekki nokkur maður undir það mat, en Bjarni virðist sannfærður um að mikið fylgi við Sjálfstæðisflokkinn í kraganum sé hans sköpunarverk, að fylgið flykkist að honum persónulega en ekki að flokknum. Og hreinsi hann af öllum ásökunum um spillingu.
Síðast þegar Maskína spurði um traust til ráðherranna, í nóvember síðastliðnum, sögðust aðeins 16,7% treysta Bjarna en 74,7% vantreysta honum. Þetta var langversta útkoma ráðherranna. Vantraustið á Bjarna var yfirgnæfandi í öllum aldurshópum og öllum byggðum, meðal tekjulágra sem tekjuhárra og meðal allra kynja. Konur höfðu minna traust á Bjarna en karlar. Aðeins 10,9% kvenna treystu Bjarna en 21,9% karla.
Eini hópurinn sem treysti Bjarna frekar en vantreysti voru kjósendur Sjálfstæðisflokksins. 67,5% Sjálfstæðisflokksfólk treysti Bjarna. Þá er átt við fólk sem studdi flokkinn þegar könnunin. var gerð. Af þeim sem kusu flokkinn 2021 treystu 54,4% Bjarna. Óvinsældir Bjarna virðast því hafa þónokkur áhrif á fallandi stuðning við Sjálfstæðisflokkinn. Þau sem snúa baki við Bjarna snúa líka baki við Sjálfstæðisflokknum.
Undirskriftasöfnunin gegn Bjarna er farin að fikra sig upp listann yfir allra stærstu safnanir sögunnar. Sumar þessara safnanir höfðu áhrif, breyttu stefnu viðkomandi mála. Hætt var við fyrirætlanir, fólk sagði af sér og mál voru send í þjóðaratkvæði. En í öðrum tilfellum hélt valdastéttin óbreyttri stefnu og hlustaði ekki á vilja stórs hóps almennings. Það á eftir að koma í ljós hver verður viðbrögð Sjálfstæðisflokksins og stjórnmálastéttarinnar við andúð almennings á að Bjarni Benediktsson sé forsætisráðherra, en það er auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn og síðan aðrir flokkar sem standa að ríkisstjórninni sem bera ábyrgð á því að óvinsælasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar ar gerður að forsætisráðherra.
Hér er listi yfir stærstu undirskriftasafnanir sögunnar:
- 86.729 undirskriftir: Krafa um að 11% af vergri þjóðarframleiðslu renni í heilbrigðismál (2016)
- 83.353 undirskriftir: Gegn beitingu breska ríkisins á hryðjuverkalögum gegn Íslandi (2008)
- 69.637 undirskriftir: Gegn flutningi Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýri (2013)
- 56.089 undirskriftir: Gegn Icesave-samningi 2 (2010)
- 55.522 undirskriftir: Varið land, gegn brottför hersins (1974)
- 53.571 undirskrift: Gegn kvótasetningu á makríl (2015)
- 53.555 undirskriftir: Áskorun um áframhald ESB-viðræðna (2014)
- 50.424 undirskriftir: Áskorun um að Faxaflói verði griðland hvala (2018)
- 47.004 undirskriftir: Gegn sölu HS-orku til Magma Energy (2011)
- 45.744 undirskriftir: Gegn brottvísun hælisleitandans Uhunoma Osayomore (2021)
- 45.386 undirskriftir: Gegn Eyjabakkavirkjun (1999)
- 43.423 undirskriftir: Krafa um nýju stjórnarskrá á grunni þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 (2020)
- 42.400 undirskriftir: Gegn Icesave-samningi 3 (2011)
- 42.343 undirskriftir: Krafa um að hætt verði við áætlanir um virkjanir á íslenska hálendinu (2015)
- 41.525 undirskriftir: Gegn vegatollum (2011)
- 37.743 undirskriftir: Krafa um leiðréttingu stökkbreyttra lána og afnám verðtryggingar (2012)
- 37.291 undirskriftir: Gegn breytingum á brjóstaskimunum fyrir krabbameini (2021)
- 36.720 undirskriftir: Ávarp Friðarhreyfingar íslenskra kvenna með ákalli um frið (1985)
- 34.882 undirskriftir: Gegn breytingum á veiðigjaldi (2013)
- 34.378 undirskriftir: Gegn EES-samningum (1992)
- 33.000 undirskriftir: Gegn hvalveiðum (2013)
- 32.044 undirskriftir: Krafa um að DV breyti ritstjórnarstefnu sinni (2006)
- 31.752 undirskriftir: Gegn Fjölmiðlafrumvarpinu (2004)
- 31.000 undirskriftir: Áskorun SÁÁ um að 10% af áfengisgjaldi renni til vímuvarna (2013)
- 30.300 undirskriftir: Krafa um að Sigmundur Davíð segi af sér í kjölfar Panamaskjalanna (2016).
- 30.093 undirskriftir: Áskorun Geðhjálpar um að setja geðverndarmál í forgang (2020)