Hrollur hefur farið um stuðningsmenn Palestínu síðustu daga vegna úrslitakvölds Evróvisjón sem fram fer í kvöld.
Í stað þess að Ísrael hafi verið meinuð þátttaka að ósk margra vegna voðaverkanna á Gaza er framlag Ísraels komið í úrslit og mikill áróður rekinn síðustu sólarhringa fyrir framlaginu.
Lagið er nú komið í annað sæti hjá veðbönkum. Greina erlendir fjölmiðlar frá því í dag að hæglega gæti farið svo að Ísrael sigri keppnina og Evróvisjón verði haldin í Tel Aviv að ári.
Baul áhorfenda hefur verið klippt út þegar áhorfendur hafa púað á ísraelska keppandann. Vettvangur mótmæla hefur verið færður til svo minna fari fyrir þeim. Palestínski fáninn er bannaður í höllinni í Malmö. Fleira mæti nefna sem rennir stoðum undir að keppnin hafi aldrei verið pólitískari en nú.
Hér á landi hafa tónlistarmenn farið í hár saman vegna deilu um hvort Ísland átti að sniðganga keppnina. Þykir ýmist þarft eða ótuktarlegt að samstöðutónleikar hafi farið fram í Háskólabíói á sama tíma og Hera Björk Þórhallsdóttir, fulltrúi Íslands, reyndi að komast í úrslit án árangurs síðastliðið þriðjudagskvöld.
Króatar hafa þó örlítið betur í veðbönkum sem stendur. Það gæti breyst áður en úrslit verða kynnt, enda virðast Ísralesmenn beita jafnt peningalegum og stjórnmálalegum þrýstingi á lönd til að reyna að tryggja eigið brautargengi og sem flest atkvæði. Virðist gilda einu þótt þeir fremji þjóðarmorð á Palestínumönnum í beinni útsendingu á sama tíma.
Evróvisjón var upphaflega komið á fót til að viðhalda friði í álfunni. Ísrael er ekki hluti Evrópu.
Lesa má á samfélagsmiðlum innanlands að margi hugsi til þess með hryllingi ef Ísrael vinnur keppnina.