Birtingu greinar Ole Antons Bieltvedt þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að honum þyki hjónin Baldur Þórhallsson og Felix Bergson passa illa sem forsetamynd var hafnað af ritstjórn DV sökum þeirra fordóma sem fram í henni koma. Sama grein var birt á Heimildinni á laugardaginn og hefur vakið mikla reiði.
„Kannske er ég of gamaldags, en mér finnst líka, að tvíeyki, Baldur & Felix, forseti og bóndi, sem forsetamynd, illa passa. Hefði fremur viljað sjá fallega, venjulega forsetafjölskyldu“ skrifaði Ole Anton í greininni.
Hörður Torfason tónlistarmaður og mannréttindafrömuður birti í nótt færslu á Facebook þar sem hann sagði að skrif Ole Antons væru hatursorðræða. „Ég er alveg til að gefa Heimildin tækifæri á að biðjast opinberleg afsökunar á að birta svona skrifa á síðum sínum. Ég vil trúa að þarna hafi mistök í yfirlestri átt sér stað. Ef ekki þá hætti ég stuðningi mínum við blaðið og ég hvet alla aðra til að gera það sama. Þetta heitir hatursorðræða.“
Í athugasemdum við færslu Harðar er fjöldi fólks sem tekur undir með honum. Þannig skrifar Gestur Valgarðsson: „En það er allt í lagi að senda Heimildinni pillu, því allar tilvísanir í eðlilega kynhegðun fólks eins og þær séu óeðlilegar ættu ekki að finna heimili á Heimildinni ef hún vill láta taka sig alvarlega.“
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor emerítus í kennslufræðum, segir þá að hann hefði hugsað sér að senda Heimildinni bréf og kvarta undan málflutningi Ole Antons. Hann hafi látið af því verða eftir að hafa séð skrif Harðar og hvetur hann fleiri til að gera slíkt hið sama.
Í annarri færslu segir Sara Dögg Svanhildardóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Garðabæ, að hún eigi ekki eitt aukatekið orð. „Ég er hreinlega miður mín. Ætla fjölmiðlar að halda uppi svona viðbjóði sem er ekkert annað en hatursorðræða í skjóli skoðanafrelsis. Ég trúi ýmsu upp á blessaðan Moggan en að Heimildin leyfi sér slíkt kemur mér verulega á óvart. Þessi skrif Ole eru meiðandi, ljót og hreinn viðbjóður.“
Gunnar Helgason, leikari og rithöfundur og vinur þeirra Baldurs og Felix, skrifar þá á sína síðu að hann hefði haldið að við sem samfélag værum lengra komin. „Frá því að ég stofnaði stuðningsfólkssíðu Baldurs og Felix hefur svoleiðis hellst yfir mig og auðvitað þá miklu fremur, fordómaflaumur. Ég hélt í alvörunni að við værum komin lengra sem samfélag, sem þjóð. Þarna er bakslagið í réttindabaráttu hinsegin fólks holdi klætt. Skrifað á samfélagsmiðla eða í Heimildina. Og mbl.is og víðar.
[…]
Heimildin, sem jafnan gerir út á það að vera réttsýnastur fjölmiðla, skuldar þeim Baldri og Felix opinbera afsökunarbeiðni.
Og þú, Ole minn, gerir það líka.
Áfram Baldur, áfram hinsegin fólk, áfram allir.“
Í lok færslunnar merkir Gunnar ritstjóra Heimildarinnar, þau Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur og Þórð Snæ Júlíusson, auk Ole Antons, og skrifar: „Þið eigið leik.“