Hjálparsamtök hælisleitenda og flóttafólks á Íslandi, Solaris, senda frá sér yfirlýsingu þar sem þau fordæma orð Helga Magnúsar Gunnarssonar, vararíkissaksóknara, um skjólstæðinga sína og samtökin sjálf.
Helgi Magnús fór með mjög undarlega og rætna orðræðu í garð heilla menningarheima í viðtali þegar hann var spurður um málslok í dómsmáli Mohamad Kourani, sem hlaut réttilega 8 ár í fangelsi fyrir lífshættulega líkamsárás sína á tvo menn.
Kourani hefur lengi hótað Helga og fjölskyldu hans ofbeldi ásamt því að hafa gert það við fleira fólk og Kourani hefur þegar framið mörg afbrot hér á landi. Helgi nýtti þó tækifærið til að yfirfæra brjálsemi Kourani sem einstaklings yfir á gervalla menningarheima, sem hann kallaði „ósiði“ og sagði aðeins skilja „hnefann“ og „valdbeitingu“. Slíkir menningarheimar væru í árekstri við okkar.
Helgi hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir orð sín, ekki síst af Oddi Ástráðssyni, lögmanni, sem dregur réttilega í efa hæfi Helga til að sinna málum sem varða einstaklinga af erlendu bergi brotna í ljósi fordómafullrar sýnar Helga á menningarheima út í veröldinni. Helgi brást ókvæða við og sakaði Odd um að hafa persónulega hagsmuni af komu fleira flóttafólks til landsins og að fjölskyldutengsl Odds væru ástæða skoðana hans. Oddur er sonur Svandísar Svavarsdóttur, innviðaráðherra.
Í færslum Helga á hendur Oddi komu einnig fram undarlegar ásakanir og dylgjur um Solaris-samtökin, þar sem ýjað var að því að þau flyttu inn hryðjuverkamenn og hættulega einstaklinga. Solaris hefur eins og frægt er orðið sinnt starfi við að aðstoða flóttafólk og hælisleitendur, þar á meðal þá einstaklinga sem sátu fastir á Gaza vegna seinagangs ríkisstjórnarinnar við að ná í fólkið, en það fólk hafði þá þegar fengið leyfi til fjölskyldusameiningar hingað til lands. Að mestu leyti konur, börn og aldraðir foreldrar.
Solaris segir í yfirlýsingu sinni að þau fordæmi „þær ásakanir sem hann setur fram á hendur samtökunum, sjálfboðaliðum þeirra og skjólstæðingum. Við hvetjum ríkissaksóknara til þess að taka þessi og önnur nýleg og forkastanleg ummæli Helga Magnúsar, vararíkissaksóknara, til athugunar.“
Helgi var áminntur af ríkissaksóknara árið 2022 fyrir mjög svo rætnar dylgjur sínar um samkynhneigða hælisleitendur sem höfðu flúið heimaland sitt vegna ofsókna sökum kynhneigðar sinnar. Helgi ýjaði þá að því að hælisleitendur væru að þykjast að vera samkynhneigðir, þeir „auðvitað ljúga“, þeim langaði bara í peninga og spurði svo hvort „þar fyrir utan er einhver skortur á hommum á Íslandi?“
Réttilega má spyrja sig hvort ríkissaksóknari grípi ekki til áminningar líka í þetta skiptið, hið minnsta, enda ljóst að orðræða Helga nú er langtum öfgafyllri en áður, þegar hann kallar eftir „hnefanum“ og „valdbeitingu“ gegn menningarheimum sem séu „ósiðir“. Forkastanleg orð.
Yfirlýsing Solaris heldur áfram: „Stjórn Solaris lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri alvarlegu þróun sem á sér stað í samfélaginu, þar sem útlendingaandúð, fordómar í garð flóttafólks og múslimahatur fer vaxandi, ekki síst á meðal fólks í valdastöðum.“
Yfirlýsingu Solaris í heild sinni má lesa hér:
Í frétt á Vísi.is þann 20. júlí 2024 og á DV.is þann 19. júlí 2024 er vísað til lokaðrarfærslu sem Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, skrifar á Facebook síðu sinni. Í færslunni sem fjölmiðlar fjalla um fer Helgi Magnús um víðan völl, og segir áeinum stað:
„Þessi lögmaður, sem mun vera sonur Svandísar Svavarsdóttur ráðherra VG, virðistkippa í kynið varðandi afstöðu til innflytjendamála og mun, samkvæmt því sem mér er sagt, hafa afkomu sína að nokkru eða öllu undir vinnu fyrir eða í kring uminnflytjendamál þar á meðal í þágu Solaris sem berst hörðum höndum fyrir nær óheftum aðgangi fólks frá miðausturlöndum að Íslandi, að því er virðist án þess að láta sig varða bakgrunn þess fólks og hugsanleg tengsl við öfga- og hryðjuverkasamtök.“
Það er margt við ummæli Helga Magnúsar að athuga og önnur eru betur til þess fallin að bregðast við ýmsu í þeim, en stjórn Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, sér ástæðu til þess að gera alvarlega athugasemd við ummæli vararíkissaksóknara sem snúa að samtökunum og skjólstæðingum þeirra.
Með ummælum sínum gefur vararíkissaksóknari til kynna að Solaris samtökin tengist með einhverjum hætti einstaklingum sem hafa tengsl við öfga- og hryðjuverkasamtök og að fólk sem hingað kemur í leit að skjóli og vernd tengist upp til hópa slíkumhópum. Þá tengir vararíkissaksóknari sérstaklega fólk frá miðausturlöndum við öfga- og hryðjuverkasamtök með ummælum sínum.
Þessar alvarlegu ásakanir vararíkissaksóknara eiga ekki við nokkur rök að styðjast og ber að fordæma. Það virðist vera í miklu uppáhaldi þessa dagana hjá ákveðnum einstaklingum og hópum í samfélaginu að tengja Solaris, sjálfboðaliða samtakanna og skjólstæðinga þeirra við hryðjuverkastarfsemi. Er það fyrst og fremst gert til þess að draga úr trúverðugleika samtakanna og þeirra sem starfa fyrir þau í sjálfboðavinnu og til þess að ýta undir fordóma og hatur í garð flóttafólks.
Þegar valdhafar taka þátt í slíkri ófrægingarherferð með hatursfullri og hættulegri orðræðu er ekki hægt að láta það óáreitt. Það er með öllu óásættanlegt að maður sem gegnir embætti vararíkissaksóknara leyfi sér að dylgja um fólk með þeim hætti sem Helgi Magnús gerir í færslu sinni.
Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds. Ríkissaksóknari fer með yfirstjórn rannsókna sakamála á Íslandi. Embættið hefur jafnframt það hlutverk að samræma og hafa eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá lögreglustjórum og héraðssaksóknara.
Einstaklingur sem starfar hjá æðsta handhafa ákæruvalds á Íslandi getur einfaldlega ekki leyft sér að dreifa rógburði um einstaklinga og hjálparsamtök og ljúga upp á þau tengslum við öfga- og hryðjuverkasamtök. Sá hinn sami hefur með því gert sig vanhæfan í öllu starfi sem snýr að umræddum málaflokkum.
Stjórn Solaris tekur undir með þeim sem hafa bent á að orðræða Helga Magnúsar sé til þess fallin að rýra traust til embættis og ýta undir fordóma og hatur í garð fólks áflótta og sérstaklega fólks frá Miðausturlöndum.
Við hvetjum ríkissaksóknara til þess að taka þessi og önnur nýleg og forkastanleg ummæli Helga Magnúsar, vararíkissaksóknara, til athugunar.
Stjórn Solaris lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri alvarlegu þróun sem á sér stað í samfélaginu, þar sem útlendingaandúð, fordómar í garð flóttafólks og múslimahatur fer vaxandi, ekki síst á meðal fólks í valdastöðum.
Við minnum á að hægt er að tilkynna hatursorðræðu í garð flóttafólks á vef Solaris samtakanna.
Fyrir hönd stjórnar Solaris,
Sema Erla Serdaroglu
formaður