Hjálparsamtökin Solaris hafa lagt fram kæru á hendur Helga Magnúsi Gunnarssyni, vararíkissaksóknara, vegna ummæla hans. Þá hafa samtökin tilkynnt Helga með formlegum hætti til ríkissaksóknara. Ummælin sem um ræðir voru bæði í garð innflytjenda og flóttafólks sem og í garð Solaris-samtakanna sjálfra.
Helgi hefur átt í undarlegri orðrimmu við Odd Ástráðsson lögmann og samtökin Solaris undanfarna daga, vegna orða sinna í viðtali við Vísi í kjölfar þess að dómur féll á Mohamad Kourani. Kourani fékk 8 ára dóm, réttilega svo. Hins vegar gekk Helgi mun lengra í orðum sínum og ásakaði heila menningarheima um „ósiði“ og að slíkt fólki skildi ekkert nema „hnefann“ og „valdbeitingu“. Þá tengdi hann sakamál Kourani við erlenda leigubílstjóra og greinilegt var af orðum hans að hann sér Kourani sem einhvers konar staðalímynd þess menningarheims sem hann kemur frá.
Orð Helga um Solaris voru einnig neikvæð. Hann ásakaði þau meðal annars um að flytja inn fólk með tengsl við hryðjuverkastarfssemi.
Hvoru tveggja var harðlega gagnrýnt af Oddi Ástráðssyni sem sá ástæðu til að efast um hæfi Helga við dómsstörf, þegar hann svo augljóslega gæti ekki verið óhlutdrægur í máli fólks af erlendu bergi brotið. Þá telur Oddur Helga hafa gerst sekann um hatursorðræðu. Helgi sakaði Odd til baka um persónulega hagsmuni af frekari innflutningi hælisleitenda og dylgjaði um fjölskyldutengsl hans.
Solaris hefur gagnrýnt Helga harðlega fyrir orð sín og krafist þess að ríkissaksóknari taki þau til athugunar. Embætti ríkissaksóknara gerði slíkt árið 2022 þegar Helgi sagði hælisleitendur „auðvitað ljúga“ um meinta samkynhneigð sína, því þeir vildu bara komast hingað og fá peninga. Nóg væri af hommum á Íslandi. Helgi var áminntur fyrir þessi orð sín.
Nú gengur stjórn Solaris skrefinu lengra og leggja fram kæru á vararíkissaksóknara. Þau telja ummælin meðal annars fela í sér „rógburð og smánun vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða sem og ærumeiðingar samkvæmt almennum hegningarlögum.“
Samtökin hafa þá með formlegum hætti tilkynnt þessi sömu ummæli til ríkissaksóknara.
Í tilkynningu sinni útskýrir stjórn Solaris rökstuðning sinn frekar.
„Vararíkissaksóknari er staðgengill ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvalds hér á landi. Í ljósi þess að Helgi Magnús Gunnarsson gegnir embætti vararíkissaksóknara eru ummæli hans sérstaklega alvarleg og áhrif þeirra mikil. Því er mikilvægt að fara lengra með málið.“
„Framferði og tjáning Helga Magnúsar er honum og embætti ríkissaksóknara til vanvirðu og grefur undan trausti til embættisins. Um er að ræða háttsemi sem varpar rýrð á störf hans sem vararíkissaksóknari, á embætti ríkissaksóknara og ákæruvaldið almennt.“
Nú er tilvalið að fólk staldri við og aðskilji nokkra hluti. Eitt er að vera sammála Helga um afstöðu hans gagnvart öðrum menningarheimum og innflytjendastefnu, jafnvel áliti hans á Solaris. Allt annað er að meta hæfi hans sem vararíkissaksóknara, þegar umrædd ummæli eru líklega meiðyrði í garð Solaris, enda afar alvarlegar ásakanir settar fram án sannana. Þá er einnig ljóst að innflytjendur og fólk af erlendu bergi brotið almennt mun eiga erfitt með að treysta því að þau hljóti sanngjarna málsmeðferð af hálfu Helga og af hálfu embætti saksóknara ef ekki verður á þessu tekið, einfaldlega vegna þess að Helgi lætur mjög skýrar og afdráttarlausar skoðanir í ljós sem snúast gegn heilum menningarheimum.
Er vararíkissaksóknara stætt að fara fram með ásakanir sem gætu vel varðað lög gegn meiðyrðum? Er vararíkissaksóknara stætt að fara fram með mjög skýrar pólitískar skoðanir sem snúast gegn heilum hópum fólks, þar sem það fólk á jafnan rétt á óhlutdrægri og sanngjarnri málsmeðferð?