Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, heldur áfram að grafa sig dýpra í ómálefnalegheitin í deilu sinni við Odd Ástráðsson, lögmann. Oddur fordæmdi orð Helga um innflytjendur og flóttafólk sem „ósiði“ og það fólk skildi ekki neitt nema ofbeldi. „Það eina sem stoppar þá er hnefinn“, sagði Helgi í síðustu viku. Samstöðin fjallaði um málið. Oddur gagnrýndi hann harðlega og nú svarar Helgi með dylgjum um persónulega hagi Odds.
Tilefni orða Helga var dómur sem féll á hendur Mohamad Kourani, en hann hlaut 8 ár í fangelsi fyrir ofbeldisfulla morðtilraun með hnífi gegn tveimur mönnum í versluninni OK Market. Kourani á sér langa afbrotasögu að baki hér á landi og er samkvæmt öllum málavöxtum og eigin hegðun greinilega brjálæðingur sem er ógn við samfélagið. Réttilega hlaut hann því 8 ár í fangelsi.
„Þetta er rökvilla 101. Þegar þú tekur eitt einstakt tilvik af einum manni og heimfærir það sísvona upp á hóp fólks. Það liggur í samhengi hlutanna að hann er að vísa þarna til fólks af erlendum uppruna, allavega. Líklega fólks sem er annarrar trúar en flestir sem eru þáttakendur í íslensku samfélagi,“ sagði Oddur um þessi orð Helga. Oddur telur þau bera skýr merki hatursorðræðu og vísaði í Facebook-færslu sinni þar sem hann fordæmdi Helga í tilmæli ráðherraráðs Evrópuráðsins um hatursorðræðu: „Öll tjáning sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðingahatur eða annars konar hatur […] gegn minnihlutahópum og fólki af erlendum uppruna.“
„Mér finnst ég ekki vera að teygja mig neitt sérstaklega langt þegar ég held því fram að þetta sé nákvæmlega það,“ sagði Oddur við Vísi.
Það er laukrétt hjá Oddi, enda bendlaði Helgi mál Kourani við heila menningarheima sem hann kallaði ósiði og telur aðeins skilja eitt tungumál og það sé ofbeldi. Þá vatt Helgi sér beint úr því í tal um leigubílstjóra af erlendum uppruna og blandaði þannig afbroti Kourani við víðari umræðu um innflytjendur, hælisleitendur og flóttafólk almennt. Helgi er greindur maður og gerði það væntanlega ekkert óviljandi.
Oddur segir það ljóst að fólk af erlendu bergi brotið muni eiga erfitt með að treysta því að fá sanngjarna og réttláta málsmeðferð ef Helgi er aðili að máli þeirra í ljósi orða hans og hversu öfgafullar hans skoðanir eru greinilega á öðrum menningarheimum sem hann dæmir óspart út frá hegðun einstaklinga.
Helgi trúir greinilega á þá kennisetningu að árás sé besta vörnin, en í kjölfar gagnrýninnar frá Oddi þá henti Helgi í illa soðinn reiðilestur á Facebook-síðu sinni. Oddur er sonur Svandísar Svavarsdóttur, innviðaráðherra fyrir Vinstri græna og telur Helgi þau fjölskyldutengsl hans, ásamt meintum persónulegum hagsmunum gera gagnrýnina ómerka.
Oddi „virðist kippa í kynið varðandi afstöðu til innflytjendamála og mun, samkvæmt því sem mér er sagt, hafa afkomu sína að nokkru eða öllu undir vinnu fyrir eða í kring um innflytjendamál þar á meðal í þágu Solaris sem berst hörðum höndum fyrir nær óheftum aðgangi fólks frá miðausturlöndum að Íslandi, að því er virðist án þess að láta sig varða bakgrunn þess fólks og hugsanleg tengsl við öfga- og hryðjuverkasamtök,“ skrifaði Helgi Magnús á Facebook-síðu sinni.
Oddur sé með sleggjudóma og sé „augljóslega að sleikja höndina sem fæðir hann eins og gengur meðal hans líka, líta algerlega fram hjá tilefni þessa viðtals sem eru víðtæk ofbeldisverk þessa Kourani“. Þá sé hann að ganga erinda flokks móður sinnar og þeirra pólitísku stefnu.
Oddur hafnar þessu alfarið og segist enga persónulega né fjárhagslega hagsmuni hafa af komu fleiri hælisleitenda til landsins og hafnar einnig þeirri ásökun að hann sé að líta framhjá eða gera lítið úr afbrotum Kouranis. „Þvert á móti er ég einlæglega þeirrar skoðunar að öll eigi að vera jöfn fyrir lögunum.“ Orð Helga dragi í efa getu hans til að sýna óhlutdrægni, en réttilega má benda á það að ásýnd hlutleysis og raunveruleiki þess, eftir fremstu getu, er hornsteinn hugmyndarinnar um réttarríkið.
Andsvar Helga dregur líka í efa rökfræðilega hæfileika hans ef marka má álíka rökleysu og hann færir fram í Facebook-færslu sinni: „Lesið fréttir!“ Hann sé að benda á staðreyndir „sem allir þekkja“.