„Ég elska Ísland en ég sé mig ekki flytja tilbaka til Íslands (aldrei að segja aldrei). Lánamálin, veðrið, hjarðhegðunin og spillingin eru aðal ástæðan fyrir því að ég er ekki að flytja heim á næstunni. Það sem ég sakna mest er fjölskyldan, vinirnir og sundlaugarnar.“
Svo hljóðar nokkuð dæmigert svar af þeim vel yfir hundrað sem hafa svarað spurningu sem lögð var fram innan hópsins Íslendingar í útlöndum. Spurningin var einföld: „Haldið þið að þið munið einhvern tímann flytja aftur til Íslands? Af hverju/af hverju ekki?“ Óhætt er að segja að flestir svara því neitandi. Áberandi er hve margir nefna spillingu á Íslandi sem ástæðu þess að viðkomandi sér ekki fyrir sér að flytja aftur heim til Íslands. Álíka margir nefna hve lélegt heilbrigðiskerfið sé orðið á Íslandi.
Ljóst er að þessi hópur telur ekki alla þá tæplega 50 þúsund Íslendinga sem eru með skráð lögheimili erlendis en ekki verður þó hjá því komist að svör við fyrrnefndri spurningu gefi ákveðna mynd á ástæðu þess að íslenskir ríkisborgarar vilja ekki lengur búa á Íslandi.
„Nei, eins leiðinlegt og það er að segja það þá er Ísland rotið, því miður. “Litla ameríka” eins og ég kalla það. Stressið í íslensku samfélagi er áþreifanlegt þegar maður kíkir á klakann. Alltaf “brjálað að gera” við að rembast eins og rjúpa við staur í brjálæðis vaxtaokri með íslensku krónuna og samanburðarkomplex (stærsta húsið, flottasti bíllinn osfrv). Íslenska þjóðin er með Stockholm Syndrome á háu stigi að leyfa þessu að ganga yfir sig. Frakkarnir væru búnir að brenna niður Alþingi,“ svarar kona nokkur fyrrnefndri spurningu.
Önnur kona svarar svo: „Líklegast ekki. Það eru bara allt önnur lífsgæði erlendis sem væri erfitt að gefa eftir til þess að flytja aftur til Íslands.“
Sú þriðja skrifar: „Ég segi bara aldrei……heilbrigðiskerfið er ekki það gott og ég vill geta borgað niður í húsinum mínu eins og hér í Banadaríkjunu……vinkona mín sagði að hún myndi deyja án þess að eiga íbúðina sína skuldlausa sem hún hefur “átt” í mörg ár. Ég kem í heimsókn tvisvar á ári og fylgist vel með hlutunum. Lífsgæðin eru bara betri hér fyrir mig og mína fjölskyldu.“
Sú fjórða skrifar: „Nei, ég er 99% viss um að gera það ekki. Hef ekki efni á að búa á Íslandi, og heilsan mín er svo miklu betri hérna á Tenerife.“
Sú fimmta skrifar: „Efast það… Mikið auðveldara að hafa það mikið betra í Skotlandi en á Íslandi og stutt að skreppa ‘heim’ ef manni langar til. Það er bara svo margt alveg ónýtt á Íslandi. Það væri kannski skömminni skárra ef það væri ekki króna svo hægt væri að losna við þessa verðtryggingu og öllu öðru slæmu sem fylgir krónunni.“