Hinn afar umdeildi fyrrverandi háskólaprófessor, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, segist hafa kosið Katrínu Jakobsdóttur utankjörstaðar í dag. Vanalega er ekki mikil frétt í því að greina frá því hvað Hannes kaus, enda innmúraður og gallharður Sjálfstæðismaður.
Því er í raun ekki úr vegi að segja að tilkynning Hannesar um þetta sé ákveðin staðfesting á því að Katrín sé frambjóðandi Sjálfstæðismanna i forsetakosningunum. Líkt og svo oft áður kveinkar hann sér þó við allri gagnrýni, þó að þessu sinni ekki fyrir hönd Bjarna Benediktssonar, heldur fyrir hönd Katrínar.
„Ég þarf að fara af landi brott vegna skyldustarfa í fyrramálið, svo að ég kaus utankjörstaðar í Holtagörðum í dag. Ég skil satt að segja ekki þá heift, sem hlaupin er í stuðningsmenn sumra frambjóðenda og beinist aðallega gegn einum. Aðalatriðið er, úr því að við erum með þetta embætti, að húsráðandinn á Bessastöðum sé landi og þjóð til sóma. Þá kemur aðeins einn frambjóðandi til greina, finnst mér,“ segir Hannes á Facabook.