Meint hlutdrægni, handahreyfingar, morð á börnum og sitthvað fleira eru umræðuefnin meðal íslensku þjóðarinnar eftir kappræður sex efstu frambjóðenda í baráttunni um Bessastaði, sem fram fóru á Stöð 2 í gærkvöld.
Margir hafa skrifað um að þeim finnist óviðeigandi að stuðningur við Katrínu Jakobsdóttur hafi komið fram í innslagi sem sýnt var í þættinum á Stöð 2 með rödd almennings. Hinir frambjóðendur hafi ekki notið sömu trakteringa. Margir nefna að Katrín virðist njóta forréttinda valda og tengsla í heimi meginstraumsfjölmiðla.
Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri sagði í kappræðunum að hún hefði helst verið gagnrýnd fyrir handahreyfingar í kappræðum Rúv.
Það kann að vera til marks um málefnaþurrð sem gæti orðið vísbending um að persónuleg afstaða og sjarmi ráði miklu á kjördag. Þó hefur skapast umræða um skoðun Arnars Þórs Sigurðssonar sem ræddi þungunarrof í gærkvöld.
Frambjóðendur fengu færi á tilþrifum þegar Heimir Már Pétursson spyrill og fréttamaður spurði hvort rambjóðendurnir í hópnum hefðu hugsanlega farið á djammið þegar þeir voru yngri og fundið sér hjásvæfu? Mogginn gerði barferð Baldurs Þórhallssonar að umræðuefni í Spursmálum fyrir nokkrum vikum.
Eftir þáttinn í gærkvöld hafa margir sett fram þá skoðun á samfélagsmiðlum að þeir muni ekki endilega velja sér þann frambjóðanda á kjördag sem þeir vildu helst sjá í embætti á Bessastöðum.
„Hef fylgst með Skrímsladeildinni þ.m.t. Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur á RÚV, andskotast í Baldri Þórhallssyni fyrst og síðan Höllu Hrund Logadóttur, hún hefur gefið skotleyfi á alla sem eru ekki Katrín J og ógna kjöri hennar,“ skrifar Erling Ingvason þjóðfélagsrýnir og tannlæknir í færslu á facebook eftir þáttinn í gærkvöld.
„Þetta virkar á sumt fólk, nógu margt fólk, ég hugsa að ég endi með því að kjósa strategískt þann sem verður í bestri stöðu eftir tvær vikur og er ekki skjólstæðingur Skrímsladeildarinnar,“ segir Erling.
Ný fylgiskönnun Maskínu sem kynnt var í gærkvöld á Stöð 2 sýnir að þótt Halla Hrund hafi fallið um nokkur prósent eykst fylgi Katrínar ekki. Fylgi Höllu Tómasdóttur er á hraðastri uppleið og virðist sem Höllurnar tvær, Katrín og Baldur eigi öll möguleika á Bessastöðum.