Áhættan af vaxtamálum bankanna vofir yfir ríkissjóði

Ein af meginreglum EES-réttar er að valdi röng eða ófullnægjandi innleiðing EES-reglna einstaklingum tjóni þá verður ríkið skaðabótaskylt fyrir það tjón.

Hagsmunsamtök heimilanna sendu frá sér: „Dómur Hæstaréttar Íslands í hinu fyrsta af svokölluðum vaxtamálum gegn bönkunum þar sem deilt er um lögmæti skilmála um breytilega vexti er væntanlegur innan örfárra daga.

Ágreiningsmál af þessu tagi um skilmála um breytilega vexti eiga sér langa sögu og aðdraganda þar sem Hagsmunasamtök heimilanna og nú Neytendasamtökin hafa farið fremst í flokki.

Eins og gefur að skilja vonast Hagsmunasamtök heimilanna eftir því að dómurinn falli neytendum í hag enda getur hann haft víðtækt fordæmisgildi um tugþúsundir lána og ómælda hagsmuni.

Á hinn bóginn hafa Hagsmunasamtök heimilanna verulegar áhyggjur af því ef bankinn yrði sýknaður í málinu líkt og í þeim héraðsdómi sem var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands í málinu. 

Ástæðan fyrir þessu er sú að að þrátt fyrir að í málinu lægi fyrir ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sem var afgerandi neytendum í hag gekk héraðsdómur þvert gegn því áliti. Einkum vegna þess að í hinum íslensku lögum um fasteignalán til neytenda sem voru sett til að innleiða samsvarandi tilskipun kæmi fram séríslenskt ákvæði sem héraðsdómari taldi leyfa notkun hinna óréttmætu skilmála.

Ein af meginreglum EES-réttar er að valdi röng eða ófullnægjandi innleiðing EES-reglna einstaklingum tjóni þá verður ríkið skaðabótaskylt fyrir það tjón. Bankarnir hafa sjálfir metið fjárhagslega hagsmuni sína af niðurstöðu dómsins á upp undir 100 milljarða króna. Það er þó aðeins til dagsins í dag en án tillits til vaxtamunar á þeim áratugum sem eftir standa af lánstíma viðkomandi lána.

Fari það svo að Hæstiréttur Íslands staðfesti niðurstöðu héraðsdóms er hættan sú að þessi reikningur lendi ekki á hinum brotlegu lánveitendum heldur ríkissjóði og þar með skattgreiðendum og öllum almenningi. Hagsmunasamtök heimilanna binda því vonir við að Hæstiréttur Íslands vandi til verka og forðist að senda svo risavaxinn og galopinn reikning til ókominnar framtíðar á ríkissjóð.

Rétt er að minna á í þessu sambandi að þegar Hæstiréttur Íslands samþykkti beiðni um áfrýjunarleyfi í málinu var sú ákvörðun meðal annars byggð á þeim rökum að dómur í málinu gæti haft “verulega samfélagslega þýðingu”. Senn líður að úrslitastund um hver sú þýðing verði raunverulega.

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka þá afstöðu að heimilin eiga ekki að vera fóður fyrir bankana!

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí