Núverandi löggjöf er óskýr hvað snýr að heimildum til að skerða ellilífeyri vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum sem almennar tekjur en ekki atvinnutekjur. Á þessu tvennu getur reynst tugþúsunda munur á mánuði hverjum og líkur eru til að ellilífeyrisþegar hafi verið hlunnfarnir um slíkar upphæðir um árabil.
Þetta er inntak greinar Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, í Morgunblaðinu í dag. Hann rekur þar að velferðarnefnd hafi nýlega fengið lögfræðiálit frá skrifstofu Alþingis sem inniber það sem rakið er hér í upphafi. Í lögum er kveðið á um tvenns konar frítekjumark, annars vegar almennt upp á 25 þúsund krónur á mánuði og hins vegar sérstakt frítekjumark atvinnutekna upp á 200 þúsund krónur á mánuði. Það þýðir, skrifar Björn, að skerðingar almannatrygginga hefjast ekki fyrr en eftir 225 þúsund krónur á mánuði, eftir því hvernig tekjur fólk hefur.
„Ef við tökum einfalt dæmi um einstæðan einstakling með 225 þúsund í lífeyrissjóðsgreiðslur ofan á fullan lífeyri, þá er viðkomandi að fá 422.698 kr. á mánuði. Ef viðkomandi fær hins vegar sömu upphæð í atvinnutekjur, þá þýðir það 493.630 kr. á mánuði í vasann samkvæmt reiknivél TR. Þarna munar um 71 þúsund krónum á mánuði ef lífeyrissjóðsgreiðslur væru flokkaðar sem atvinnutekjur og féllu undir sérstaka frítekjumarkið.“
Björn Leví segir að hann hafi verið að eltast við þetta mál síðan skömmu eftir kosningarnar árið 2021 en hvergi hafi fengist viðurkenning á gallanum. Nú sé loks komið lögfræðiálit þar sem þetta sé orðað skýrt: „Því er nærtækt að draga þá ályktun á grundvelli orðskýringar að til atvinnutekna teljist greiðslur sem byggjast á því iðgjaldi sem einstaklingur hefur greitt í lífeyrissjóð.“
Björn Leví skrifar að afleiðingarnar af þessu geti verið að síðan að lögin sem sett voru í lok 2016 tóku gildi sé búið að hafa af ellilífeyrisþegum umtalsverðar fjárhæðir sem þeir áttu rétt á lögum samkvæmt. Ætlunin hafi verið að setja lögin þannig að lífeyrissjóður teldust ekki atvinnutekjur gagnvart sérstak frítekjumarkinu en sú framkvæmd laganna virðist sem sagt ekki standast lagabókstafinn.
Bendir Björn Leví á að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem galli á sömu lögum komi fram. Árið 2019 var ríkið dæmt til að greiða lífeyrisþegum um fimm milljarða króna vegna galla í lagasetningu sem olli því að lífeyrisgreiðslur voru skertar vegna tekna úr lífeyrissjóðum. Skerðingarnar stóðu aðeins í tvo mánuði, janúar og febrúar árið 2017, áður en gallinn uppgötvaðist og var leiðréttur í meðförum þingsins.
Í ljósi þess að ríkið þurfti vegna þess máls að endurgreiða um þrjátíu þúsund lífeyrisþegum tæpa fimm milljarða króna vegna ólöglegra skerðinga sem aðeins stóðu í tvo mánuði, getur fólk rétt ímyndað sér um hvaða upphæðir gæti verið að tefla nú, þegar þessar skerðingar sem Björn Leví fjallar um, og virðast hafa verið ólöglegar, hafa verið ástundaðar í á áttunda ár.
Björn Leví segir kaldhæðislegt að þessi galli sé á sömu lagasetningu og þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar hafi kerfið þvermóðskast við og neitað að viðurkenna hann. En hvað gerist í framhaldinu. Skrifar Björn Leví að velferðarnefnd muni líklega leggja til einhvers konar breytingar, „en skaðinn er skeður. Það þarf líklega enn eitt dómsmál til þess að meta rétt fólks vegna þeirra ólöglegu skerðinga sem nú eru í gildi. Það gæti þýtt 71 þúsund krónur aukalega á mánuði, einhver ár aftur í tímann.“