„Manni var verulega brugðið að koma inní Nettó um kl 01.30 í nótt. Sjá sofandi mann í anddyrinu. Þetta á ekki að sjást árið 2024 hjá einni ríkustu þjóð í heimi.“
Þetta skrifar íbúi í Breiðholtinu innan Facebook-hópsins Íbúasamtökin Betra Breiðholt í dag og deilir myndinni sem sjá má hér fyrir ofan. Óhætt er að segja að þetta innlegg hafi vakið hörð viðbrögð margra á örskömmum tíma.
Líkt og við var að búast þá fara sumir í rasískar skotgrafir og nánast stæra sig af eigin skorti á samkennd, hafa tapað því að sjá hið sammannlega. Yfirgnæfandi meirihluti er þó sammála því að þetta sé til skammar fyrir þjóðfélagið. „Aumingja maðurinn,“ segir einn meðan annar segir: „Hrikalegt að horfa uppá svona.“
Svo eru nokkrir sem segja að þetta hafi ekki verið í fyrsta skiptið sem maðurinn hafi þurft að hýrast þarna. „Hann er búinn að vera í anddyrinu undanfarna daga. Er svo sem ekkert að abbast neitt uppá fólk en mikið er sorglegt að horfa uppá þetta,“ segir ein kona. Einungis einn maður talar fyrir því að íbúar taki málin í eigin hendur og aðstoði manninn sjálf. „Hættum þessu tuði og gefum honum teppi,“ segir sá maður.