Varar við lúmskri ritskoðun á Íslandi – „Athyglishagkerfið er ógeðslegt í eðli sínu“

Það er nokkuð óumdeilt á Íslandi í dag að öll ritskoðun frá ríkinu sé afar neikvæð og í raun óverjandi. Það sama má þó varla segja um ritskoðun sem erlend risafyrirtæki beita með oft lúmskum hætti í íslensku samfélagi. Í það minnsta virðast margir fljóta sofandi að feigðarósi hvað það varðar. Þó eru sífellt fleiri sem vara við þeirri skerðingu á málfrelsi sem venjulegir Íslendingar verða fyrir af höndum erlendra risafyrirtækja. Tónlistamaðurinn Svavar Knútur er þar á meðal en hann bendir á að þessi fyrirtæki séu í raun að slaufa gífurlegum menningarverðmætu hvern einasta dag.

„Hafið þið velt fyrir ykkur hversu mikið af list og menningu er haldið frá okkur af hátæknirisunum og hversu gríðarleg slaufunaráhrif þeir hafa á umræðu, fólk, menningu og þekkingu?,“ spyr Svavar á Facebook, þeim miðli sem kaldhæðnislega er einna verstur í þessum efnum.

Svavar segir að í raun endi þetta með því mörg listaverk hverfa inn í tómið. „Nú eiga færri og færri DVD spilara, af því það er hægt að horfa á allt í streymi. En er hægt að horfa á allt í streymi? Tökum sem dæmi myndina Twin Town, með Rhys Yfans. Snilldar dökk kómedía frá Wales. Prófið að finna hana á einhverjum streymisveitum. Hún er ekki heldur til á Google/youtube. Önnur mynd: Pane I Tulipani (Brauð og túlípanar). Hvergi til og ekki heldur á DVD. Myndin, rétt um 20 ára gömul mynd, alger snilld, margverðlaunuð og frábær, horfin úr öllu sem þið getið séð,“ skrifar Svavar Knútur.

Hann segir þetta ekki einugis eiga við kvikmyndir, heldur einnig fólk. „Og þegar hlutir eru ekki lengur sjáanlegir, hverfa þeir úr minni. Ef Spotify sýnir ykkur ekki nýjustu tónlistina með tónlistarfólki sem þið hafið hingað til fílað, þá dettur fæstum í hug að leita að henni. Ef myndir eru ekki til á streymisveitum, þá dettur fæstum í hug að leita að þeim. Ef einhver dettur út af Facebook er viðkomandi ekki lengur sjáanlegur og þess vegna ekki lengur til í samfélaginu,“ segir Svavar Knútur og bætir við að lokum:

„Stóru tæknifyrirtækin búa nú yfir getunni til að loka augum fólks fyrir öllu mögulegu og fólk hreinlega, eins og lítil börn sem hafa ekki „object permanence“, gleymir að hlutir séu til. Athyglishagkerfið er ógeðslegt í eðli sínu.

Feigðarósinn er raunverulegur og langflestir fljóta sofandi.

Ekki fljóta sofandi.

Að því sögðu. Á einhver Brauð og Túlipana á DVD? Mig langar svo að bjóða Líneyju í bíó…“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí