Snarpar umræður urðu á Alþingi í dag þar sem forsætisráðherra sakaði þingmenn minnihlutans um að fara með þvælu.
Óp og köll urðu í þingsal er mest gekk á.
Þingmenn höfðu gert athugasemd við að útlendingalög yrðu á dagskrá í dag og sýndu svipbrigði Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra að honum þótti lítið um málflutninginn.
Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar, gerði athugasemd við að forsætisráðherra vogaði sér að hlæja framan í opið geðið á stjórnarandstöðunni.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra varð til svara og kallaði það þvælu að ekki mætti ræða útlendingafrumvarpið í dag.
Varð af þessu mikið orðaskak.
Umræða fór fram um breytingar á fjármálaætlun. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, ræddi að hún sem nefndarmaður í fjárlaganefnd hlyti að gera athugasemdir við breytingar á fjármálaáætlun að loknu nefndaráliti sem hún hefði skrifað undir.
Sérstaklega nefndi Kristrún að Þjóðaróperan væri dottin út úr fjármálaætluninni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra, svaraði og sagði rangt að þjóðaróperan væri ekki fjármögnuð. Hún sagði að gengið yrði frá málinu á haustþingi.
Aðrir þingmenn í minnihlutanum sögðu ástæðu breytinga þá að ekki væri til peningur í ríkiskassanum.
23 mál eru áætluð á dagskrá þingsins í dag.