Lokuð búsetuúrræði (lesist fangabúðir), fingrafaraskannarar á landamærum og fækkun umsókna um hæli eru meðal loforðaflaums Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra.
Flauminn fór hún með í hlaðvarpi Þórarins Hjartarsonar, Ein Pæling, þar sem allir helstu málsvarar og predikarar harkalegrar útlendingastefnu virðast eiga sér góðan samastað til að hella úr skálum andúðar sinnar.
Guðrún er forsprakki nýsamþykktra og ömurlegra útlendingalaga, þar sem biðtími fyrir fjölskyldusameiningu var lengdur og gildistími leyfa fyrir hælisleitendur styttur. Frumvarpið gekk því mjög á réttindi barna í neyð, eins og Umboðsmaður barna benti réttilega á í umsögn um málið, en sú umsögn var hunsuð með öllu af stjórnarliðum.
Barn sem situr fast á stríðsvæði þarf nú að bíða í tvö ár í stað eins árs, eftir því að foreldri þess öðlist rétt til þess að fá fjölskyldu sína með sér hingað til lands. Annað markmið frumvarpsins var að stytta biðlista umsókn, en mun augljóslega hafa öfug áhrif vegna styttingar á gildistíma dvalarleyfa, þar sem tíðari endurnýjanir þýðir mun meiri vinnu fyrir Útlendingastofnun, sem þegar er drekkhlaðin verkefnum og biðlistar langir sem stendur. Meðlimir stjórnarandstöðunnar bentu á bæði atriðin, trekk í trekk, en það var einnig hunsað.
Aftur að þvaðri Guðrúnar í útlendingaandúðarhlaðvarpinu. Þar lofaði hún öllum þessum harkalegu aðgerðum á næsta þingi í haust.
Lokuð búsetuúrræði er mál sem Guðrún hefur hampað mjög og er það einna verst af hennar hugmyndum. Það snýst í kjölinn bara um það að setja fólk sem búið er að ákveða að vísa úr landi í „búsetu“ sem sé „lokuð“. Á mannamáli heita það fangabúðir. „Lokað“ þýðir að fólk verður ekki frjálst ferða sinna. Í fangelsum hafa fangar tæknilega séð „búsetu“. Fangelsi fyrir hælisleitendur er hugmyndin, ef hugmyndin er útskýrð með nokkrum vott af heiðarleika.
Miðað við að Vinstri græn veittu útlendingafrumvarpi hennar framgöngu síðast, vegna þess sem Jódís Skúladóttir þingmaður þeirra kallaði svo mikla málamiðlun, þá gæti það vel tekist hjá Guðrúnu í haust.
Þessi mál eru annars áframhaldandi liður í skringilegri vegferð Sjálfstæðisflokksins í átt æ öfgafyllri afstöðu í útlendingamálum, enda flokkurinn búinn að keyra efnahagsmál í algert þrot á undanförnum áratug og getur því illa háð kosningabaráttu á þeim gamla heimavelli sínum.
Ekki það að sú strategía flokksins hafi virkað vel, en frá því að Bjarni Benediktsson hóf þessa stefnubreytingu á tröppum Bessastaða með hræðsluáróðursræðu um útlendinga, hefur flokkurinn hrapað úr 22% fylgi niður í núna 14,7%, það lægsta í sögu flokksins.
Þetta tæpa ár sem er eftir af kjörtímabilinu gæti vel reynst afar skætt fyrir Ísland, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist staðráðinn í því að tortíma sér með frekari öfgum og munu nýta hvert einasta tækifæri til þess að grafa gröf sína dýpra á tímanum sem þau eiga eftir við völd. Samstarfsflokkarnir eru svo hræddir við kosningar að þau beygja sig undir hvað sem er í ofbeldissambandinu, enda gefa þau eigin mál stöðugt upp á bátinn en veita andstyggðinni í útlendingaandúð Sjálfstæðisflokksins stöðugt framgengi.