Alþingi samþykkir útlendingalög með miklum meirihluta – Þögn Vinstri grænna ærandi

Frumvarp ríkisstjórnar um breytingar á lögum um útlendingalög voru samþykkt rétt í þessu með miklum meirihluta 42 atkvæða, þrátt fyrir fordæmingu ýmissa stofnana, sérfræðinga og samtaka víða að úr samfélaginu og að það gangi í berhögg við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Með þessum lögum verður alvarlega skertur réttur hælisleitenda til fjölskyldusameiningar og mun það auka bæði erfiðleika umsækjenda og stofnana sem taka á móti þeim umsóknum.

Logi Einarsson sagði Samfylkinguna styðja ákveðna hluta frumvarpsins en vegna ákvæða um fjölskyldusameiningu, þar sem þrengt er að skilyrðum þess, hefði Samfylkingin lagst gegn frumvarpinu, en þingflokkur Samfylkingarinnar sat hjá í atkvæðagreiðslu.

Viðreisn sat hjá, margt gott væri í þessu frumvarpi en ákvæði um börn og fjölskyldusameiningu væri þeim ekki að skapi, sagði Þorgerður Katrín. Einhverra hluta vegna kaus Viðreisn þó ekki gegn frumvarpinu og fagnaði öðrum breytingum þess.

Öfgarnar komu skýrt fram frá Flokki fólksins, Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum. Eyjólfur Ármannsson úr Flokki fólksins sagði frumvarpið útvatnað og alls ekki ganga nógu langt. „Þetta mál hvílir eins og mara á íslensku samfélagi“ og leysi ekki vandann sem sé of mikill fjöldi hælisleitenda í landinu. Birgir Þórarinsson úr röðum Sjálfstæðisflokksins sagði frumvarpið „svara kalli almennings“ um að fækka hælisleitendum. Bergþór Ólason úr Miðflokki fagnaði málinu en kallaði eftir enn frekari herðingu reglna í framtíðinni. Skref í rétta átt sem Miðflokkurinn styðji en ekki nóg sé gert.

Bjarni Benediktsson sagði stjórnarflokkana sammælast um að „grípa til aðgerða í útlendingamálum“, vegna þrýstings á „félagslega“ innviði samfélagsins. Þá lagði hann áherslu á „lög og reglur á landamærunum“ en útskýrði ekkert frekar hvað í ósköpunum hann átti við með þeirri furðulegu staðhæfingu.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kallaði jafnframt eftir því að breytingartillaga á frumvarpinu færi í gegn um að geta vísað hælisleitendum úr landi gerist þeir brotlegir við lög. Tillögunni var hafnað með miklum meirihluta.

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, fagnaði þó hugmyndinni en hafnaði henni af „lagatæknilegum ástæðum“. Guðrún sagði markmið frumvarpsins skýr. „Heildstæð sýn og stefna“ sem ríkisstjórnin hafi sammælst um.

Breytingatillögu stjórnarandstöðunnar þar sem lagt var til að falla frá því að skerða rétt barna til að sameinast fjölskyldum sínum, var einnig felld.

„Eitt geta þeir komið sér saman um, það er að sparka í börn“ sagði Arndís Anna, þingmaður Pírata, um framgang stjórnarflokkanna. Það sé ekkert gott við þetta frumvarp. Hún óttist að þeir þingmenn sem styðji frumvarpið „hafi hreinlega ekki lesið það“ og spurði „hvaða skilvirkni er í því í að stytta dvalarleyfistíma?“. Það vinni ekki að þeim markmiðum sem haldið er fram að það geri.

Lenya Rún Taha Karim sagði markmið um skilvirkni í frumvarpinu standast ekki skoðun, fækkun nefndarmanna og fleiri ákvæði hefðu hreinlega öfug áhrif. Þau ákvæði voru „ekki lögð fram með mannúð eða skilvirkni að leiðarljósi“.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir úr Framsóknarflokknum sagði að „í skilvirkni felst líka mannúð“, þess vegna væri þetta gott mál sem hún styðji heilshugar og vonaðist eftir breiðri sátt þó svo hún teldi það ekki líklegt. Líneik Anna Sævarsdóttir, einnig úr Framsókn, sagðist „stolt af vinnunni“ sem farið hefur í málið. „Verkefnið þarf að forðast skautun“, sagði hún og fagnaði „heildarsýn og breiðri samvinnu“ um það.

Eva Sjöfn Helgadóttir, úr flokki Pírata sagði að frumvarpið vinni hreinlega gegn inngildingu þegar fjölskyldum er gert erfiðara um að sameinast. Hún beindi skotum að barnamálaráðherra og spurði hvernig það gæti í ósköpunum verið gott fyrir hagsmuni barna að halda þeim lengur á stríðssvæðum. Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra Framsóknarflokksins, sagði frumvarpið taka mið af þeim hagsmunum og því styðji hann frumvarpið án hiks.

Andrés Ingi Jónsson, Pírati. talaði ekki frumvarpið sem slíkt en kallaði eftir því að forseti Alþingis fjarlægi lífverði Bjarna Ben sem stóðu við hlið þingsalsins, sérsveitarmenn lögreglu sem ættu ekki heima á „friðheilögu“ þingi Íslendinga. Hávært heyr heyr mátti heyra úr þingssal eftir ákall Andrésar en Birgir Ármannsson neitaði að bregðast við og vísaði í öryggishagsmuni.

Þögn Vinstri grænna var ærandi. Aðeins Jódís Skúladóttir úr röðum þeirra tók til máls. Hún sagði VG styðja málið af því að það væri svo mikið meðalhóf. Þar sem frumvarpið væri ekki eins og Píratar eða Miðflokkur myndu vilja, þá væri í því svo hrikaleg málamiðlun og þess vegna myndi VG styðja málið.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí