Nú þegar fagnað er víða að Julian Assange, blaðamaður og stofnandi Wikileaks, hafi verið sleppt úr eilífðarvist prísundar sinnar berast tragíkómískar fréttir af stöðu frjálsrar fjölmiðlunar hér á landi.
Rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi Eystra á hendur fimm íslenskra blaðamanna vegna umfjöllunarinnar um hina svokölluðu skæruliðadeild Samherja, virðist ætla að vera eilíf.
Rannsóknin hefur nú þegar tekið að verða tvö og hálft ár, en nákvæmlega tvö ár og fjórir mánuðir eru liðnir frá því að blaðamennirnir voru kallaðir til skýrslutöku lögreglunnar á Akureyri.
Blaðamennirnir sem hafa stöðu sakbornings eru Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson, Ingi Freyr Vilhjálmsson, Þórður Snær Júlíusson og Þóra Arnórsdóttir; þáverandi starfsmenn Stundarinnar, Kjarnans og Ríkisútvarpsins. Voru þau kærð af Páli Steingrímssyni, skipstjóra hjá Samherja og einn meðlima svokallaðrar skæruliðadeildar fyrirtækisins, fyrir það að hafa stolið af honum síma og gögnum í honum.
Umfjöllunin sem kveikti þessa atburðarás kom í kjölfar umfjöllunar Kveiks um mútugreiðslur Samherja til namibískra yfirvalda, þegar Stundin og Kjarninn fjölluðu um meinta skæruliðadeild, sem hafði það að markmiði að ófrægja blaðamenn og draga úr trúverðugleika þeirra.
Rannsóknin á hendur blaðamönnunum hefur tekið ógnarlangan tíma en virðist ætla að endast út eilífiðina ef marka má nýjustu fréttir af stöðu málsins. Lögreglan á Norðurlandi eystra verst allra svara frá fjölmiðlum eins og fyrri daginn vegna málsins og neitaði að svara nýlegri fyrirspurn RÚV. Varasaksóknari umdæmisins, Eyþór Þorbergsson, gaf þó þau svör við spurningum blaðamanns RÚV að beðið væri eftir gögnum frá erlendum samskiptafyrirtækjum. Hann viðurkenndi þó að biðin væri orðin mjög löng og að sögn RÚV var hann raunar ekki viss hvort þau fengju gögnin nokkurn tímann í hendurnar.
Með öðrum orðum þá hefur rannsóknin ekki færst um fet, þrátt fyrir ósk ríkissaksóknara fyrir rúmu ári síðan um að hraða ætti meðferð málsins. Vegna þess að beðið er eftir gögnum sem kunna aldrei að berast. Þangað til eiga blaðamennirnir fimm að hafa stöðu sakbornings í lögreglurannsókn.
Taka skal fram að engin sönnunargögn hafa litið dagsins ljós fyrir ásökunum Páls Steingrímssonar, enda veita lögregluyfirvöld engin svör til fjölmiðla um málið.
Meðferð ýmissa ríkisstjórna Vesturlanda á Julian Assange var grimmileg. Hann var neyddir til hælisvistar í sendiráði Ekvadors árum saman til að forðast það að vera hent í bandaríska dýflissu og vera pyntaður þar eins og Chelsea Manning þurfti að ganga í gegnum. Síðan varði Assange fjöldamörgum árum í ómannúðlegri vist í breska öryggisfangelsinu Belmarsh, fyrir þann glæp einan að hafa sagt frá stríðsglæpum bandarísku ríkisstjórnarinnar.
Hann fékk frelsið loks í dag vegna samkomulags þar sem hann játaði á sig sök á broti við njósnalögum Bandaríkjanna, eftir áralanga dýflissuvist.
Gjarnan er vestrinu hampað sem verndara lýðræðisins og þar með frjálsrar fjölmiðlunar, en meðferðin á Assange sýnir annað. Yfirvöld hér á Íslandi ganga einnig gegn frelsi fjölmiðlunar með framgangi sínum í lögreglurannsókninni á hendur blaðamönnunum fimm. Rannsókn er haldið gangandi til hins óendanlega, að því er virðist frá persónulegum bæjardyrum blaðamanns, til að refsa fyrir gagnrýna umfjöllun. Í það minnsta verður ekki annað séð af skorti á öllum sönnunargögnum um annað.
Þá má velta fyrir sér hvort blaðamennirnir fimm þurfi að verja næstu 14 árum í þessa baráttu, eins og Assange og neyðast loks til að játa á sig glæpi sem þau segjast ekki hafa gert, til þess eins að losna undan offorsi lögregluyfirvalda.