Senn fer að líða að því að Halla Tómasdóttir taki við keflinu af Guðna Th. Jóhannessyni sem nýr forseti Íslands. En Guðni er þó ekki enn alveg búinn. Eitt síðasta embættisverk hans verður sennilega ávarp sem hann flutti við við frestun þingfunda á Alþingi fyrr í kvöld.
Sú ræða var að flestu leyti hefðbundin og bar helstu höfundareinkenni Guðna, svo sem tíðar tilvitnanir í fyrri forseta, forvera Guðna í starfi. Eftir að hann þakkaði fyrir samstarfið síðustu átta ár, þá notaði Guðni einnig tækifærið til að koma á framfæri beiðnum sínum til yfirvalda varðandi framtíð forsetaembættisins.
„Hér og víðar hef ég áður minnst á endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins sem ber þess enn glögg merki, eins og Sveinn Björnsson sagði á sínum tíma, að vera sniðin „upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum“. Þannig er sitthvað í þjóðhöfðingjakafla stjórnarskrárinnar með öðrum brag en æskilegt er; meint vald til að veita undanþágur frá lögum og annar atbeini sem er í raun ekki í verkahring forseta, kostnaðarsöm og úrelt ákvæði um verksvið handhafa forsetavalds og er þá ekki allt talið. Einnig nefni ég augljósa kosti þess að sett verði lög um embætti forseta Íslands, meðal annars til að tryggja stjórnsýslulegt sjálfstæði þess,“ sagði Guðni fyrr í kvöld.
Þetta var þó ekki eina ósk Guðna og kom hún vafalaust fleirum á óvart en sú fyrri. Guðni hafði orð á því að næsta 17. júní yrði tekið upp nýtt fyrirkomulag og það yrði forsetinn sem héldi ræðu dagsins en ekki forsætisráðherra, líkt og hingað til.
„Forseti Íslands er eini fulltrúi þjóðarinnar sem kjósendur geta valið í beinni kosningu. Forsetinn er þjóðhöfðingi Íslendinga. Honum er ætlað að gegna „sameiningarskyldum við þjóðina“ svo að vitnað sé til orða Ólafs Ragnars Grímssonar. Ekki hef ég viljað vekja máls á því opinberlega á meðan ég sit sjálfur á Bessastöðum en í ljósi hinnar einstöku stöðu forseta Íslands í stjórnskipun og samfélagi tel ég fara vel á því að sá eða sú sem því embætti gegnir flytji ávarp til þjóðarinnar á Austurvelli á þjóðhátíðardaginn frekar en forsætisráðherra eins og venja hefur verið. Þar fer stjórnmálaleiðtogi sem talar frá degi til dags fyrir hönd ríkisstjórnar eða síns flokks. Sá maður er því í öðrum sporum en forseti hverju sinni.“
Ef kosningum verður ekki flýtt og ríkisstjórnin springur ekki á lokametrunum þá verður það Bjarni Benediktsson sem samkvæmt venju myndi halda ræðuna á 17. júní. Það verður að koma í ljós hvort Guðni fái ósk sína rætta og það verði Halla Tómasdóttir sem haldi ræðuna í stað Bjarna.