Útboð lóða renna út eins og heitar lummur þessa dagana, sem sveitarfélögum og lóðabröskurum gæti þótt gósentíð, en afleiðingarnar munu enda á herðum fyrstu kaupenda og leigjendum.
Nýafstaðið lóðaútboð í Mosfellsbæ var gríðarlega vinsælt, en 389 umsóknir bárust um 39 lóðir eða nærri því tíu fyrir hverja lóð að meðaltali. Bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Regína Ásvaldsdóttir, var í skínandi skapi og glöð yfir útboðinu samkvæmt umfjöllun Vísis og segir umsóknirnar hafa borist frá bæði einstaklingum og verktökum.
Fyrir bókhald sveitarfélagsins mun þetta útboð líta vel út, þó bara sé um einskiptisgreiðslur að ræða við slíkt útboð. Einnig mun það líta vel út á pappír fyrir sveitarfélagið að íbúðauppbygging sé að eiga sér stað. Lóðirnar voru þó greinilega í fæstum tilvikum ætlaðar því að mæta húsnæðisþörf fyrstu kaupenda eða leigjenda, enda 30 einbýlishúsalóðir, 8 parhúsalóðir og ein fjögurra eininga raðhúsalóð.
Hvorki byggt þétt né ódýrt með öðrum orðum.
Útboð ýta undir hærri verð
Sér í lagi er byggt dýrt vegna vinsælda útboðsins, því ein neikvæðasta afleiðing þessa háttar sem sveitarfélögin beita öll í útdeilingu lóða, með útboðsleið, er að lóðirnar verða á endanum mjög dýrar. Enn og aftur, lítur vel út á pappír og bókhaldi til skamms tíma, en ef að lóðirnar verða dýrari vegna mikillar samkeppni þar sem aðilar yfirbjóða hvorn annan, þá verður endanlegur kostnaður húsnæðisins dýrari líka.
Aðilinn sem keypti lóðina þarf sinn gróðaskerf ofan á dýrt verð, aðilinn sem byggir húsnæðið á lóðina þarf að mæta lóðarkostnaði, gróðaskerf lóðaeigandans og sinn eigin gróðaskerf. Kaupandi þarf því að mæta lóðarkostnaði og gróðaskerf tveggja aðila jafnvel.
Enda lýsir það sér í tölum HMS, þegar um 85% af öllu nýbyggðu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu kostar nú orðið meira en 60 milljónir.
Fyrstu kaupendur og leigjendur súpa seyðið
Fyrstu kaupendur ráða ekki við slík verð, enda er yfir 80% af nýbyggðu húsnæði keypt af fjárfestum eða eignafólki.
Það þýðir líka að fyrstu kaupendur fá ekki séns á því að kaupa eldri fasteignir, eins og eðlilegt ætti að vera, því nýbyggingar eru ekki keyptar af fólki sem er að uppfæra húsnæði sitt, fara úr gömlu í nýtt, heldur er það keypt af aðilum sem bæta því í eignasafn sitt.
Þannig endar byrðin líka á leigjendum, enda þurfa fjárfestar eða eignafólk sem vill græða á þessum fasteignakaupum að dekka lóðaverðið og samanlagðan gróðaskerf allra aðila í keðjunni, sem og lánakostnað og jú sinn eigin gróðakerf, því fáir leigusalar af þessari gerð eru í því braski til þess að þurfa að borga með eigninni, þeir vilja jú sinn skerf líka.
Mikill fjöldi einstaklinga að kaupa lóðir?
Í tilfelli Mosfellsbæjar er vert að staldra við þau orð bæjarstjórans að aukinn hluti lóðakaupenda voru einstaklingar. Því hvað vilja einstaklegar með slík fjárráð gera með lóðir? Kannski eru þar á ferð mjög fjársterkir aðilar sem hyggjast byggja sjálfir og kosta það til, kannski byggja sér lúxushíbýli eða eitthvað slíkt. Kannski eru þar einstaklingar sem vilja byggja hagkvæmt og setja það á markað eða í útleigu, en þó væntanlega með gróðavon með áðurnefndum afleiðingum.
Einhver hluti slíkra einstaklinga gæti þó vel verið lóðabraskarar, enda auðvelt að misnota lóðaeign. Það væri þá fólk sem hefur næg fjárráð til að kaupa lóð í vinsælu útboði, en hyggst sitja á lóðinni án þess að byggja, bíða eftir hækkun í verði, sem þarf ekki að vera löng bið í ljósi vinsælda útboðsins og selja hana enn hærra verði en þeir keyptu hana á. Þannig tekið út sinn skyndigróða og hækkað alla keðju verða sem af því athæfi hlýst.
Því er ekki slegið föstu að svo sé í nákvæmlega þessu tilfelli, heldur er það bara ljóst að slíkt viðgengst víðs vegar og hefur blaðamaður heyrt af því ýmis dæmi frá heimildarmönnum. Punkturinn er einfaldlega sá að með því að iðka útboðsleið, þar sem sveitarfélög selja lóðir til hæstbjóðenda, er boðið upp á miklar hækkanir og gróðatækifæri sem eru almenningi ekki til hagsbóta.
Sigurður Ingi fékk samþykkt máttlaust frumvarp gegn lóðabraski
Sjálfur innviðaráðherra, fyrrverandi, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafði sjálfur orð á þörfinni fyrir því að skera upp herör gegn slíku lóðabraski. Alþingi samþykkti þannig frumvarp hans um málið, en það skerði þó ekki neitt í sjálfu sér, heldur gaf einungis sveitarfélögum heimild til þess að leggja á kvaðir um að byggja þyrfti innan ákveðins tímaramma á lóðum. Þá var samt veittur allt að fimm ára frestur til lóðaeigenda, sem er samt nægur tími til að græða á lóðabraski.
Eðlilegra væri þannig að sveitarfélög og ríki myndu byggja sjálf á lóðum í þeirra eigu, án hagnaðarsjónarmiða, eða þá selja þær á undirverði til óhagnaðardrifinna leigufélaga eða til félagslega húsnæðiskerfisins. Það er að segja, ef ódýrt og hagkvæmt húsnæði fyrir almenning er markmiðið.