Það kom mörgum Íslendingum í opna skjöldu þegar utanríkisráðuneytið tilkynnti um vopnakaup til stuðnings Úkraínuhers. Margir hafa gagnrýnt kaupin harkalega enda gengur hún gegn yfirlýstri Þjóðaröryggisstefnu Íslands þar sem þátttaka Íslands t.d. í Atlandshafsbandalaginu er fyrst og fremst sögð á borgaralegum forsendum. Þórdís Kolbrún Reykfjörd Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur varið vopnakaup íslenska ríkisins á þeim forsendum að Ísland verði að hjálpa til við að verja friðinn en ekki eru allir sammála þessari stefnu. Nýkjörinn forseti Íslands, Halla Tómasdóttir hefur lýst sig andvíga því að Íslendingar fjármagni vopnakaup og sömuleiðis er varaþingmaður Samfylkingarinnar Guðmundur Árni Stefánsson á sama máli og sagði það galið að leggja 16 milljarða íslenskra króna til vopnakaupa. Flestir eru sammála um að hér hefur orðið róttæk breyting á utanríkisstefnu Íslands án eðlilegs samráðs og mögulega gegn vilja þjóðarinnar.
Samkvæmt utanríkisráðherra er um að ræða milliríkjasamning milli Íslands og Úkraínu sem ekki fer í gegnum Atlandshafsbandalagið heldur var Tékklandi falið að kaupa vopnin. Það var á öryggisráðstefnunni í Munchen í febrúar síðastliðnum að forseti Tékklands, Petr Pavel, greindi frá því að Tékkland hefði fundið leið til að kaupa sprengikúlur (artillery shells) utan Evrópusambandsins sem hægt væri að tryggja á stuttum tíma. Seinkun á framboði vopna frá Bandaríkjunum til Úkraínu hafði að sögn Úkraínumanna skapað alvarlegt ástand á framvarðarlínunni.
Samkvæmt stjórnvöldum í Tékklandi hafa alls 15 ríki stutt Tékka við kaupin á vopnunum, þar á meðal Kanada, Noregur, Svíþjóð og Danmörk. Um ræðir 1.8 milljarða Bandaríkjadala sem eiga að hafa safnast. En fulltrúum frá Tékklandi ber ekki saman um hvað mikið hafi verið keypt, hvaðan og hverjir séu búnir að borga í sjóðinn ef marka má yfirlýsingar forsetans, forsætisráðherrans og varnarmálaráðherrans.
Sameinuðu Þjóðirnar hafa hvatt til þess að það sé algjört gagnsæi við öll vopnakaup. Í október 2023 vöruðu Sameinuðu Þjóðirnar við skort á gagnsæi þegar kemur að vopnakaupum til Úkraínu. Aðalritari Sameinuðu Þjóðanna hefur auk þess hvatt til þess að Rússland og Úkraína setjist að samningaborðinu. Tékkland er í 47. sæti á Transparency International listanum þegar kemur að spillingu. Það þarf því ekki að koma á óvart að ýmsar spurningar eru að vakna um vopnakaup Tékka fyrir Úkraínu. Í grein í Eurasia Review eru settar fram alvarlegar spurningar um hvernig vopnakaupin hafa farið fram og hvaðan þau séu keypt. Það er því vert að spyrja er Ísland með því að útvista vopnakaupum til Tékklands mögulega að leggja til fjármagn sem endar hjá ríkjum sem brjóta á mannréttindum eða eru einstakir einstaklingar að hagnast á ferlinu. Gengur slík fjármögnun gegn stjórnsýsluákvæðum íslenska ríkisins?
Myndin er af Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra Íslands og Volodymyr Zelenskyj forseta Úkraínu undirrita varnarsamning, sem m.a. kveður á um vopnakaup Íslands.