„Kynjuð“ skuldabréf Sigurðar Inga tilraun til markaðssetningar og markaðsvæðingar jafnréttismála

Undanfarin fáein ár hefur umræða kviknað í kringum gleðigöngur víða um heim hvernig fyrirtæki og stjórnmálafólk virðist eigna sér réttindabaráttu hinsegin fólks með markaðssetningu. Fyrirtæki virðast skella regnbogamerki á hvað sem er í kringum þann tíma með þá von um að eygja frekari sölur.

Það má staðhæfa þann ásetning því að slík fyrirtæki voru ekki til staðar þegar að réttindabarátta hinsegin fólks hafði virkilega á brattann að sækja. Fyrirtækin voru þá hvergi með regnbogamerkingar. Þvert á móti komu þau til sögunnar með slíka markaðssetningu bara þegar að hinsegin fólk var búið að vinna töluvert á í sinni baráttu, þó hún sé ekki fullunnin enn.

Hillary Clinton var mikið gagnrýnd fyrir það í forsetaframboði sínu þegar hún tapaði gegn Donald Trump árið 2016, að allt í einu hafði hún orðið sá frambjóðandi sem stæði fyrir hinsegin fólk. Aðeins fáeinum árum áður hafði hún verið harðlínumanneskja gegn hjónaböndum samkynhneigðra. En vindarnir breyttu um pólitíska átt og hún fór með þeim.

Nú hefur ríkisstjórn Íslands, nánar tiltekið fjármálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, gefið út „kynjuð“ ríkisskuldabréf. Hvað það þýðir raunverulega, er eðlilegt að fólk spyrji sig að. Skuldabréfin eru ekki hugsuð sem slík að þau hafi bókstaflegt kyn, enda dauður hlutur og fjármálaapparat. Nei, bréfin eru víst hugsuð eins og „græn“ skuldabréf, sem, já, eru líka til.

Afrakstur á sölu slíkra skuldabréfa er ætlað að mæta kostnaði við aðgerðir gegn loftslagsvánni, eða í tilviki kynjuðu skuldabréfanna sem er hið nýja, ætlað að mæta kostnaði við aðgerðir sem „stuðla að kynjajafnrétti“. Þá væri slíkum hagnaði á sölu ætlað að verða „sjálfbær fjármögnun“ á aðgerðum sem sé ætlað að tryggja konum og kvárum í viðkvæmri stöðu félagslega þjónustu og viðunandi lífsskilyrði.

Markmiðin eru því ekki vond, heldur afar göfug, á að hljóma alltént. Þó er vert að staldra við þessa hugmynd um að selja skuldabréf á markaði og vonast eftir hagnaði til að mæta kostnaði, fremur en að hreinlega fjármagna málaflokkinn beint strax. Jaðrar við útvistun á félagslegri þjónustu, í það minnsta kostnaðarliðnum.

Auðvitað er meginmarkmiðið ljóst frá fyrstu sýn. Jákvæð markaðssetning á útgáfu skuldabréfa, með því að gera þau „kynjuð“ er greinilega tilraun til að grípa tíðarandann, mála ríkisstjórnina upp sem einhvers konar málsvara undirokaðra hópa og á sama tíma reyna að lokka kaupendur að skuldabréfunum, rétt eins og lottó fyrir góðgerðasamtök.

Fólk sem er í viðkvæmri stöðu og vantar félagslega þjónustu, sama hvort það er mannfólk almennt, konur, kvár eða hvað sem er, þjáist samt helst fyrir sömu undirliggjandi ástæður. Fátækt, öryggisleysi í húsnæði, skortur á öryggisneti, hvort sem er í formi fjölskyldu eða í formi velferðarkerfa. Þetta eru allt grundvöllur fyrir því að einstaklingar geti lifað öruggu og góðu lífi. En öllu þessu hefur ríkisstjórnin sem Sigurður Ingi hefur setið í meira og minna frá árinu 2013, beinlínis grafið undan. Því verður ekki snúið við með því að kynja skuldabréf, ekki frekar en að gefa út „fátæk“ skuldabréf. En vonin hjá pólitísku reiknivélinni er að þetta gefi þeim jákvæða umfjöllun og hífi fylgið upp.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí