Stjórnir norrænu læknafélaganna hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu og ákall á yfirvöld Norðurlandanna um að beita sér fyrir því að alþjóðleg mannréttindalög verði virt á Gaza. Læknafélag Íslands skrifar einnig undir og er bréfinu beint að ríkisstjórn Íslands, meðlimum Alþingis og fjölmiðlum.
„Við, læknafélögin í norrænu ríkjunum, hvetjum eindregið ríkisstjórnir okkar til að krefjast þess að alþjóðleg mannréttindalög séu virt án undantekninga á Gaza. Drápin og limlestingar á almennum borgurum, þar með talið heilbrigðisstarfsfólki, verður að stoppa umsvifalaust.“
Yfirlýsingin heldur áfram og kallar eftir vopnahléi án tafar og því að öllum gíslum verði sleppt úr haldi. Brýnast sé þó að „nægjanleg mannúðaraðstoð verði send til Gaza til að tryggja það að engir almennir borgarar þjáist eða deyji úr þorsta, hungri eða skorti á skýli eða heilbrigðisaðstoð“.
Læknafélögin hvetja yfirvöld eindregið til þess að gera allt sem þurfi til að endurreisa starfhæft heilbrigðiskerfi á Gaza, enda neyðin einstaklega mikil um þessar mundir þegar að nær allir spítalar eða heilbrigðisstofnanir á Gaza hafa verið sprengd í tætlur.
Yfirlýsingunni lýkur á því að minna á stuðning læknafélaganna við ályktun alþjóðlegra læknasamtaka um að vernda beri heilbrigðisþjónustu á Gaza. Sú ályktun var samþykkt í apríl á þessu ári á ráðstefnu samtakanna í Suður-Kóreu.