Offors og ofbeldi lögreglu gegn friðsömum mótmælendum er nú efniviður nýrrar lögsóknar, en níu mótmælendur hafa tekið sig saman og hafið málsókn gegn íslenska ríkinu. Krafist er miskabóta vegna „ólögmætra“ aðgerða lögreglunnar.
Oddur Ástráðsson, lögmaður hópsins, segir lögreglu hafa með valdbeitingu sinni „með ólögmætum hætti skert tjáningar- og fundafrelsi þeirra og með því vegið að rétti þeirra til stjórnarskrárvarinnar þátttöku í lýðræðislegri umræðu“.
Samstöðin ræddi við mótmælendurna við Rauða borðið skömmu eftir atburðina og sögur þeirra lýstu vægast sagt hrottalegri framkomu lögreglunnar. Það sem meira er höfðu mótmælendur náð miklum hluta lögregluofbeldisins á myndbönd, sem einn mótmælendanna, Pétur Eggerz, hefur haldið utan um á instagram síðu sinni, en hann var einnig meðal mótmælendanna sem komu á Rauða borðið.
Lögreglumenn úðuðu piparúða í gríð og erg, á friðsama mótmælendur og í sumum tilvikum á meðan að mótmælendur voru að hörfa og bakka undan lögreglunni. Þá voru mótmælendur dregnir eftir götunni og farið afar harkalega með þá.
Mótmælin sem málið varðar snerust um að mótmæla aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda gagnvart þjóðarmorðinu á Gaza.
Við næstu mótmæli fyrir utan þinghúsið varð aftur slíkt skak á milli mótmælenda og lögreglu, með mikið af piparúða beitt og raunar svo alvarlegt var það að þingmenn sem urðu vitni að atburðunum, þingmenn Pírata, hafa kallað eftir rannsókn á þeirri óþörfu valdbeitingu lögreglu.