Námshæfni kynjanna hrakaði jafnt allt aftur til Hruns – Fátækari börnum hrakaði meir en efnameiri

Mikið hefur verið rætt um lakan árangur íslenskra drengja í síðustu könnun PISA sem kom út í desember á síðasta ári. Málið varð þannig til gerðar skýrslu sem kom út á dögunum og var kynnt af ráðherrunum Ásmundi Einari Daðsyni og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir. Skýrslan var unnin af mennta- og barnamálaráðuneyti Ásmundar.

Samstöðin skoðaði innihald skýrslunnar og komst að þeirri niðurstöðu að lítið væri í henni af raunverulega gagnlegum tillögum. Mikið af tillögum að úrbótum voru almennt orðaðar og innihaldsrýrar. Aðrar hálf einkennilegar, eins og að fjölga þyrfti karlkyns kennurum svo drengir hefðu fleiri karlkyns fyrirmyndir.

Það sem skýrslan, jafnt og umfjöllun fjölmiðla sem og samfélagsumræðan, hefur einblínt á eru gríðarlega lakar tölur drengja í PISA-könnuninni. Það sem fallið hefur hins vegar algerlega á milli skips og bryggju er sú staðreynd að íslenskar stúlkur standa líka mjög höllum fæti, þó svo að staða þeirra sé skárri en drengjanna.

Það sem er þó öllu mikilvægara en það er að séu mælingar PISA skoðaðar vandlega á grafi, þá þrennar mælingar um hæfni íslenskra drengja og stúlkna á fimmtán ára aldri í lestri, stærðfræði og vísindum, má sjá mjög áþekka þróun. Hæfni beggja kynja hefur hrakað og það sem meira er vert þá hefur hæfni kynjanna hrakað algerlega í takt. Einna skýrast má sjá það mynstur í mælingum á lestrarhæfni.

Meðal lestrarhæfni drengja og stúlkna á Íslandi:

Stúlkur eru dökkbláar og drengir gráir

Sjá má greinilega á grafinu að hæfni beggja kynjanna helst saman hönd í hönd nær allan tímann frá árinu 2000. Greinilega hnignun lestrarhæfni bæði drengja og stúlkna má merkja uppúr efnahagshruninu 2008, en það er eftir mælingarnar árið 2009 sem að hæfninni byrjar að hraka í samfelldri þróun.

Mjög áþekkt mynstur má finna í mælingum á hæfni kynjanna í bæði stærðfræði og vísindum.

Meðalhæfni drengja og stúlkna á Íslandi í stærðfræði:

Stúlkur eru dökkbláar og drengir gráir

Meðalhæfni drengja og stúlkna á Íslandi í vísindum:

Stúlkur eru dökkbláar og drengir gráir

Samstöðin vakti máls á því í umfjöllun um tillögur Ásmundar Inga, að kannski gæti verið að vandi íslenskra barna í menntakerfinu tengist ekki einungis kynjamun, heldur gæti verið að undirliggjandi kerfislægt vandamál sé að ræða.

Í ljósi mynstursins sem greina má vel úr gögnunum hefur eitthvað gerst frá árinu 2009. Í tíð stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna eftir Hrun voru margar umdeildar niðurskurðaraðgerðir hafnar. Árið 2010 var skorið niður í menntamálum um tæplega þrjá milljarða sem dæmi.

Frá tíð vinstri stjórnarinnar hafa svo einungis verið hægri stjórnir við völd á Íslandi, samanlagt í tæp 12 ár. Þeirra stefna hefur því í raun mótað heila kynslóð grunnskólabarna, ef ekki meira til, en stefna þeirra stjórna í menntamálum hafa aldrei verið ríflegar. Skemmst ber að minnast styttingu framhaldsskólans úr fjórum árum niður í þrjú af Illuga Gunnarssyni, menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem framkvæmt var í nafni hagræðingar.

Ásmundur Einar, barna- og menntamálaráðherra, segir ákvörðunina hafa verið mistök. Stytta hefði átt frekar grunnskólanámið í staðinn! Fleiri kennarar með skegg og færri námsár á grunnskólaaldri eru lausn Ásmundar á bágri stöðu íslenskra barna í menntakerfinu.

Ræða mætti hvort að vandi bæði drengja og stúlkna í menntakerfinu sé því kannski ekki háður kyni þeirra, heldur undirliggjandi vandi sem varðar fjármögnun, stuðning og forgang sem menntamál hafa sjaldan hlotið allar götur frá Hruni.

Séu gögn PISA skoðuð útfrá öðrum mælikvörðum má sjá allt eins sterkan mun á milli lestrarhæfni sem dæmi þegar skoðuð er breyta um það hvort viðkomandi barn hafi átt sitt eigið herbergi. Sú breyta gerir það mögulegt að fá nokkurs konar innsýn í efnahagslegan bakgrunn fjölskyldu barnsins og sjá má með þeim samanburði að börn sem áttu ekki sitt eigið herbergi (bjuggu við lakari og fátæklegri skilyrði) stóðu sig langtum verr í lestri en börn sem áttu þó sitt eigið herbergi.

Meðal lestrarhæfni barna á Íslandi eftir því hvort þau áttu sitt eigið herbergi:

Börn sem áttu sitt eigið herbergi eru dökkblá, en börn sem áttu það ekki eru grá

Í því mynstri má líka sjá mikið hrun í lestrarhæfni frá árinu 2000 þegar fátækari og efnaðri börn voru jöfn. Fátækari börnin juku bara einu sinni hæfni sína og það var í tíð vinstri stjórnarinnar, en hefur hrakað aftur á ný síðan og þá langtum hraðar en þeirra efnaðri. Þó er það athyglisvert að börnum í báðum hópum hefur hrakað í tíð hægristjórna undanfarinna ára.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí